fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025
Fréttir

Umskurður drengja til að draga úr kynnautn og vinna gegn sjálfsfróun: „Hver vill gera þetta við nýfætt barn?“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 12. maí 2018 12:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Helgi Þórarinsson segir að tilgangur með kynfæraumskurði drengja sé að draga úr sjálfsfróun og skemma kynnautn karlmanna. Grein sem finna má á vefsíðu safnaðarins Chabad virðist renna stoðum undir þessar fullyrðingar. Jón segir að þessi siður sé eitt það síðasta úr því frumstæðasta úr gamla testamenti Biblíunnar sem enn sé stundað. Rabbíni úr Cabad-söfnuðinum er að flytja til Íslands og mun þjóna gyðingum hér á landi auk þess að beita sér gegn frumvarpi um bann gegn umskurði. Jón Helgi telur að fæstir foreldrar vilji láta umskera börn sín en þau láti undan þrýstingi og ofurvaldi trúarleiðtoga.

Ungur rabbíni frá Brooklyn í New York flytur til Íslands núna um helgina og sest hér að með eiginkonu og tveimur börnum. Maðurinn heitir Avi Feldman en hann mun stofna fyrsta gyðinglega bænahúsið á Íslandi, sýnagógu. Feldman er fyrsti rabbínin með aðsetur á Íslandi en hingað til hafa menn flogið hingað til að þjónusta gyðingasamfélagið á Íslandi sem í eru aðeins um 2-300 manns.

Í myndbandi sem skoða mér hér undir fréttinni ræðir eldri og reyndari rabbíni við Feldman-hjónin um Íslandsdvölina. Um er að ræða myndband sem birt var í tilefni hópfjármögnunar fyrir flutningum fjölskyldunnar til Íslands. Rabbíninn segir meðal annars við hjónin að nauðsynlegt sé fyrir þau að laga sig að siðum heimamanna og verða Íslendingar, nokkuð sem ætti að hljóma vel í eyrum þeirra sem tala fyrir aðlögun innflytjenda að samfélaginu. Hins vegar vekur nokkra undrun að rabbíninn bætir um betur og segir að hjónin verði meiri Íslendingar en heimamenn því hinir innfæddu geti alltaf flutt burtu, hjá þeim sé þetta hins vegar bara miði aðra leiðina – one way ticket.“

„Þeir senda ungan nýgræðing til að geta haft fulla stjórn á honum“

Feldman-hjónin koma úr söfnuðinum Cabad sem er söfnuður bókstafstrúarmanna. Á heimasíðu samtakanna má finna grein þar sem því er haldið fram að tilgangur með umskurði sé meðal annars að draga úr kynnautn og slík fórn sé til blessunar.

DV ræddi við Jón Helga Þórarinsson en hann vakti athygli um daginn er hann steig fram í fréttum RÚV og greindi frá að hann hefði verið umskorinn í æsku. Jón var umskorinn árið 1969 í Bandaríkjunum er hann var á fjórða ári. Foreldrar hans voru andsnúnir aðgerðinni en létu undan þrýstingi lækna. Eftir að fjölskyldan fluttist aftur heim til Íslands varð Jón Helgi fyrir miklu einelti í skóla vegna umskorins getnaðarlims sín og þurfti einnig að þola sársauka í kjölfar aðgerðarinnar. Að sögn Jóns voru á þessum tíma yfir 90% bandarískra karlmanna umskornir en talan sé komin niður í rúm 60% í dag.

Jón Helgi beitir sé nú mjög fyrir framgangi frumvarps um bann við umskurði drengja sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

DV spurði Jón fyrst hvað honum þætti um myndbandið sem nefnt var og skoða má hér að neðan:

„Sá eldri er væntanlega að stappa í þennan gaur stálinu. Þessir harðlínu-gyðingar eru að senda einhvern ungan nýgræðing hingað sem er ákveðið trix því þá geta þeir haft betri stjórn á honum og talað í gegnum hann. Þetta er dæmigerð stjórnunaraðferð. Maður veltir því hins vegar fyrir sér hvort þessir rúmlega 200 gyðingar sem hér búa hafi viljað fá svona bókstafstrúarmann til að predika yfir söfnuðinum.“

 Sp: En þarna er talað um að þau eigi að aðlagast samfélaginu og vera eins og Íslendingar. Er það ekki jákvætt?

 „Jú, vissulega. Það er spennandi að fá gyðinga hingað og þeir eru svo sannarlega ekki verri trúflokkur en aðrir trúflokkar sem hér eru. Hingað eiga allir trúflokkar að vera velkomnir svo lengi sem þeir laga sig að okkar siðum og venjum í grundvallarmálum. Við kærum okkur ekki um að konur séu kúgaðar eins og er víða, bæði í Íslam og strangtrúuðum gyðinglegum samfélögum.“

Sp: Ef þau eiga að haga sér eins og Íslendingar þá fylgir það með að þau laga sig að okkar grunngildum?

„Já, þá fylgir það með. En það er ákveðið vandamál með þennan mann. Sjáðu til, gyðingaleiðtogum úti í heimi hefur hingað til staðið á sama um þessa 200-300 gyðinga sem hér búa allt þar til umskurðarfrumvarpið kom fram. Af öllu sem ég hef séð haft eftir honumn í fjölmiðlum er ljóst að þetta er málið. Í stað þess að fá hófsaman rabbína hingað velja þeir einhvern harðlínugaur sem mun aldrei samþykkja að umskurður verði bannaður. Slíkt bann myndi hins vegar hljóma aðlaðandi fyrir fólk sem vill ekki láta umskera börnin sín en lætur undan þrýstingi umhverfisins. Ég hef fengið mörg skilaboð frá mæðrum sem segja mér að þær sjái ekki eins mikið eftir neinu og að hafa látið umskera börnin sín, sérstaklega þegar það hefur mistekist. Þá eru afleiðingarnar skelfilegar.“

Forhúðin fjarlægð til að draga úr kynnautn

Á heimasíðu Chabad er að finna áhugaverða grein um umskurð drengja. Þar segir að aðgerðina eigi að framkvæma þegar barnið er átta daga gamalt og aðeins megi fresta því vegna veikinda. Þó að karlmaður fæðist með forhúð sé honum ætlað að hún verði fjarlægð. Tilgangurinn sé meðal annars að draga úr kynnautn en það sé fórn sem gott sé fyrir manninn að færa og með því komist hann nær guði. Guðleg forsjá sé mikilvægari en sjálfsnautn.

Jón bendir á að greinar sem þessa sé að finna nokkuð djúpt inni á vef safnaðarins vegna þess að þær séu fremur ætlaðar innvígðum. Í fremri lögum vefsins séu hófsamari greinar en eftir því sem dýpra er kafað í vefinn megi finna forneskjulegri viðhorf.

Jón segir að upphaflegur tilgangur með umskurði hafi verið að draga úr sjálfsfróun. Er líða tók á 20. öldina hafi menn hins vegar tekið að tefla fram röksemdum um að þetta snerist um hreinlæti og stuðlaði að heilbrigði. Undir yfirborðinu séu það hins vegar þessi gömlu, forneskjulegu viðhorf til kynhvatarinnar sem ráði för.

Viðurlög nauðsynleg

Jón segir að fæstir foreldrar vilji láta umskera börn sín heldur sé látið undan gífurlegum þrýstingi nærsamfélagsins, þ.e. trúarsafnaðarins. „Hver vill gera svona við nýfætt barn? Þetta er ekki hugsun sem kviknar hjá foreldri sem heldur á nýfæddu barni sínu heldur er þetta gert út af utanaðkomandi þrýstingi – svo guð verði ánægður. Langflestir foreldrar væru dauðfengnir að sleppa við þetta. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa viðurlög við þessu. Foreldrar geta þá beitt fyrir sig að þetta sé ólöglegt og þeir geti lent í fangelsi þegar þeir verða fyrir þrýstingi um umskurð. Hins vegar eiga refsingar gagnvart foreldrum að vera vægar. Aftur á móti eiga þeir sem standa að þessum aðgerðum að fá miklu harðari viðurlög.“

Að sögn Jóns er mikill iðnaður í kringum kynfæraumskurð: „Bissnisinn í kringum þetta er gífurlegur, ekki bara að fólk sé að borga fyrir umskurðinn, heldur fara miklar upphæðir í að laga og byggja upp typpi sem hafa verið hálfskorin burtu og rækta á skinn. Forhúðirnar eru seldar í lyfja- og snyrtivöruiðnaðinn og þar eru gífurlegar upphæðir, samkvæmt Forbes Magazine eru þær 1-2 milljarðar bandaríkjadala á ári.“

„Í undirvitundinni skipta drengir minna máli en stúlkur“

Það er ríkjandi viðhorf að kynfæraumskurður stúlkubarna sé mun grófari aðgerð en umskurður drengja og í flestum löndum þar sem kynfæraumskurður stúlkubarna er bannaður er umskurður drengja leyfður, til dæmis hér á landi. Samkvæmt Jóni er málið ekki svona einfalt. Vissulega sé umskurður stúlkna eins og hann er framkvæmdur á sumum svæðum mikil misþyrming en víða sé hann í raun bara táknræn aðgerð. „Í Egyptalandi er til dæmis talið að um 83% kvenna séu umskornar en þar hefur bara verið um að ræða einfalda og táknræna nálarstungu. Stundum er þetta mikil misþyrming, stundum ekki.“

Á hinn bóginn mistakist umskurður drengja oft, enda í minnihluta tilvika sem læknar framkvæma aðgerðina, og afleiðingarnar séu oft hryllilegar.

„Einhvern veginn í undirvitundinni skipta strákar minna máli en stelpur. Þess vegna bönnum við umskurð stúlkna en ekki stráka,“ segir Jón.

 

 

Ekki reiður við múslima og gyðinga heldur valdhafa sem ættu að vita betur

„Ég er ekki reiður við múslima og gyðinga, þó að ég sé ósammála þeim þá skil ég afstöðu þeirra. Ég hef hins vegar orðið fyrir miklum vonbrigðum með áhrifafólk hér á landi. Hvers vegna er biskupinn á Íslandi að styðja að það sé skorið í börn? Eða kaþólski biskupinn á Íslandi. Landlæknir? Jafnréttisráð – hvernig getur það komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert mál að umskera stráka en bannað að umskera stelpur,“ segir Jón og vísar hér til aðila sem hafa lýst yfir andstöðu við frumvarpið gegn umskurði.

„Eða umboðsmaður barna. Enginn aðili ætti að berjast harðar gegn umskurði barna en umboðsmaður barna. En um leið og einhver ofsatrúarmaður saka hana um hatur í garð gyðinga og múslima þá lyppast hún niður.“

Talið var að frumvarp gegn umskurði drengja nyti stuðnings meirihluta alþingismanna. Mennta- og allsherjarnefnd ákvað hins vegar að vísa málinu aftur til ríkisstjórnar þar sem það á að fá frekari umfjöllun. Jón telur að nefndin hafi beint þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að vísa málinu frá. Jón segir hins vegar að það verði að samþykkja þetta frumvarp og banna umskurð á Íslandi og fyrir því mun hann beita sér af öllum mætti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Fær ekki að byggja gistihús á Laugavegi

Fær ekki að byggja gistihús á Laugavegi
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“
Fréttir
Í gær

Réttað yfir Tesla vegna dauða ungrar konu – Hafi hunsað viðvaranir um sjálfstýringarbúnað í áraraðir

Réttað yfir Tesla vegna dauða ungrar konu – Hafi hunsað viðvaranir um sjálfstýringarbúnað í áraraðir
Fréttir
Í gær

Oscar heldur upp á ríkisborgararéttinn með ferðalagi um Ísland

Oscar heldur upp á ríkisborgararéttinn með ferðalagi um Ísland
Fréttir
Í gær

Gangstígur lagður alveg upp við Árskóga í óþökk íbúa – „Hafa aftur og aftur reynt að fá áheyrn“

Gangstígur lagður alveg upp við Árskóga í óþökk íbúa – „Hafa aftur og aftur reynt að fá áheyrn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Deila vegna sölu fáksins Dags frá Kjarnholtum fyrir dómstóla – Hörð orðarimma í hesthúsi í Víðidal

Deila vegna sölu fáksins Dags frá Kjarnholtum fyrir dómstóla – Hörð orðarimma í hesthúsi í Víðidal