
Exista er einhver stærsta svikamylla sem hefur verið til á Íslandi. Eins og Már Wolfgang Mixa bendir á hafði Sparisjóður Keflavíkur fjárfest svo mikið í Exista að hann þoldi í raun sáralitla lækkun á bréfum í félaginu, hvað þá að þau þurrkuðust út.
Þeir voru fleiri sparisjóðirnir sem settu allt sitt í Exista og lífeyrissjóðir voru líka drjúgir við að fjárfesta í félaginu.
En þetta var algjör spilaborg, því Exista fjárfesti fyrst og fremst í Kaupþingi – og var dauðadæmt við fall þess banka. Það ráð að halda uppi gengi Kaupþings með alls kyns brellum og gjörningum sem hljóta að teljast ólöglegir gekk ekki nema í stuttan tíma.
Í framhaldi af þessu er svo hægt að spyrja: Hvað fengu forsvarsmenn sparisjóðanna sem tóku þátt í þessu fyrir sinn snúð?
Rannnsókn á falli sparisjóðanna mun vera væntanleg í haust – það ætti að verða forvitnileg lesning.