

Þegar ég var strákur var einhver dýrmætasta eign mín bók sem hét The Beatles – Illustrated Lyrics. Mamma keypti bókina í London og gaf mér.
Þetta var hefti með textum Bítlanna – myndskreytt af þekktum listamönnum. Margar myndirnar voru sérlega fallegar, aðrar mjög sniðugar – flestar eru þær greiptar í vitund mína. Ég get nánast flett bókinni í huganum.
Ég lærði líka textana – ég held að enn kunni ég texta við nánast öll Bítlalög. Ég hef reyndar alltaf átt fremur auðvelt með að muna söngtexta.
Ein af myndunum varð nokkuð fræg á sínum tíma. Hún var aftast í bókinni og sýnir hvernig teiknari ímyndar sér að Bítlarnir muni líta út þegar þeir eru orðnir gamlir.
Þetta hefur ekki beinlínis ræst – John og George létust fyrir aldur fram, og ekki líta Paul og Ringo út eins og á myndinni fyrir neðan.
McCartney er sjötugur í dag. Ég hef notið þess að sjá hann á tónleikum tvívegis síðustu árin – í seinna skiptið í París stuttu fyrir síðustu jól. Þar spilaði hann og söng af miklum móð í þrjá klukkutíma. Fáir yngri menn hefðu leikið það eftir honum.
