

Ég hef skrifað að tónlistarhúsið Harpa hafi breyst úr tákni fyrir hrun í tákn fyrir endurreisn.
Fjölbreytni tónlistarlífsins í kringum húsið er ævintýraleg.
Í kjölfar stórviðburða á Listahátíð og tónleika Elvis Costello kemur tónlistarhátíðin Reykjavík Midsummer Music sem Víkingur Heiðar Ólafsson stendur fyrir.
Þetta er kammermúsíkhátíð með íslenskum flytjendum, en efnisskráin er fjölbreytt og skemmtileg: Þarna má finna verk eftir meistara eins og Prokofiev, Ravel og Messiaen (hinn dásamlega Quatuor pour la fin du temps), en líka eftir Jón Nordal, Þorkel Sigurbjörnsson, Þórð Magnússon og Megas.
Hér er vefsíða Reykjavík Midsummer Music og hér er Facebook-síða þar sem meðal annars má sjá skemmtilegar myndir sem ljósmyndarinn Karólína hefur tekið af tónskáldum og flytjendum.
