

Dietrich Fischer-Dieskau sem nú er látinn, 86 ára að aldri, var einn fremsti söngvari tuttugustu aldarinnar. Ferill hans var sérlega glæsilegur. Efnisskrá hans var mjög breið, hann söng Wagner, Verdi, Mozart, Strauss, Bach, Mahler, en lengst verður hans líklega minnst fyrir túlkun sína á söngljóðum og þá sérstaklega lögunum eftir Schubert. Hann trúði á ljóðasöng sem háleitt listform og tókst öðrum betur að miðla honum á hljómplötum sem náðu miklum vinsældum þegar sú tækni fór að ná meiri fullkomnun eftir stríðið.
Hér syngur Fischer-Dieskau Linditréð úr Vetrarferðinni eftir Schubert, ég sé ekki betur en að meðleikarinn á píanó sé sjálfur Alfred Brendel.