
Deilurnar um kvótakerfið eru komnar í slíkt öngstræti að varla er hugsanleg nema eina leið til að klára þær – þjóðaratkvæði. Það virðist vera nokkuð almenn krafa í íslenskum stjórnmálum að efla beint lýðræði – við fengum ágætis æfingu í því í Icesave.
Steingímur J. mun leggja allt kapp á að koma frumvörpum sínum í gegn á þessu þingi – maður heyrir úr Sjálfstæðisflokknum að þótt það takist verði öllu snúið aftur í fyrra horf þegar flokkurinn kemst til valda.
Þetta er mál sem hefur klofið þjóðina í fylkingar í marga áratugi. Sárin virðast ekki ætla að gróa.
Þegar og ef tillögur Stjórnlagaráðs um að tiltekinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu verða að veruleika er þess varla langt að bíða að kröfur komi upp um þjóðaratkvæði um sjávarauðlindina. Það er talað um að tíu eða fimmtán prósent kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis – það ætti varla að vera erfitt að ná saman slíkum fjölda í þessu máli.
Svo getur forseti auðvitað knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu – en það yrði þá væntanlega að vera um tiltekið frumvarp sem Alþingi hefur samþykkt.
Framkvæmdin á þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu kjósenda gæti reyndar orðið flókin. Það yrði að stilla upp valkostum – þeir geta varla verið færri en þrír. Svo mætti reyndar hugsa sér að kjósa aftur um þá tvo valkosti sem verða eftir.