

Djöflaeyjan var með skemmtilega úttekt á fyrstu kvikmyndunum sem gerðar voru eftir sögum Halldórs Laxness í gærkvöldi. Þessar myndir eru gerðar af útlendingum, Salka Valka af Svíum 1954, Brekkukotsannáll og Paradísarheimt af Þjóðverjum árin 1973 og 1977.
Allar myndirnar eru teknar á Íslandi – en þær eru misjafnlega íslenskar. Salka Valka er mjög í anda sænskra kvikmynda þessa tíma, enda er hún tekin af sjálfum Sven Nykvist – einhverjum besta kvikmyndatökumanni sögunnar – en þýsku myndirnar voru gerðar fyrir sjónvarp, þær eru það sem núorðið kallast mini-seríur. Leikararnir í Brekkukotsannál og Paradísarheimt voru þó íslenskir – það sýnir glöggt kannski virðinguna sem leikstjórinn Rolf Hädrich bar fyrir sögum Laxness. Af þeim litlu brotum sem maður sá í gærkvöldi virðist leikstíllinn vera nokkuð hægur og leikhúslegur.
En manni finnst eins og þessar myndir hafi verið gerðar af elskusemi – sögunum er fylgt mjög nákvæmlega.
Eins og kom fram í þættinum er furðulegt að þessar myndir hafi varla verið sýndar fyrr en þá. Á því verður gerð bragarbót á hátíðinni Laxness í lifandi myndum sem verður í Bíó Paradís í næstu viku.
Síðar tóku Íslendingar við að kvikmynda verk Halldórs. Í þættinum í gær var getið Silfurtunglsins sem Hrafn Gunnlaugsson gerði fyrir sjónvarp, en síðar komu Atómstöðin, Kristnihald undir Jökli og Ungfrúin góða og húsið, íslenskar bíómyndir í fullri lengd.
Það hafa líka verið uppi áform um að kvikmynda Sjálfstætt fólk. Einhvern tíma var meira að segja talað um að Ang Lee, einn merkasti kvikmyndaleikstjóri sem nú er uppi, vildi taka að sér verkið – en úr því varð víst ekki.

Úr Brekkukotsannál. Myndin var í lit, en það gátu Íslendingar ekki séð, því íslenska sjónvarpið var í sauðalitum á þeim árum. Leikmyndin var reist inn í Gufunesi.