
Fyrir hrun var látið eins og Reykjavík væri að missa af einhverju með því að byggja ekki íbúðir og hús í gríð og erg eins og nágrannasveitarfélögin. Bæjarstjórnin sem þá sat varð fyrir mikilli gagnrýni vegna þessa.
Að allir myndu flytja í Kópavog og Hafnarfjörð en Reykjavík stæði uppi með enga fjölgun.
Nógu er reyndar dapurt um að litast við Úlfarsfell þar sem rísa átti nýtt reykvískt úthverfi – það stendur nú hálfbyggt og hálfkarað.
En samkvæmt þessari frétt RÚV var æðið sem rann á menn í nágrannasveitarfélögum slíkt að ef spárnar hefðu átt að ganga eftir hefði þurft að verða helmingsfækkun á landsbyggðinni á stuttum tíma.
Í fréttinni kemur líka fram að fólk sem býr í þessum nýju hverfum er oft mjög skuldugt. Það er kannski ekki við örðu að búast. En daprast er að mörgum þessara hverfa var hrúgað upp á stuttum tíma og lítt vandað til byggingarlistar og skipulags.