
Löng kosningabarátta er böl í mörgum löndum. Í Skandinavíu passa menn upp á að boða til kosninga – og kjósa fáum vikum síðar.
Það getur verið hrikalegt að horfa upp á kosningabaráttu sem dregst á langinn mánuðum og misserum saman. Bandaríkin eru náttúrlega sérstakt dæmi um þetta. En kannski þurfum við ekki að óttast þetta, það eru stærri mál en forsetakosningar sem eru á döfinni, breytingar á fiskveiðistjórnun og stjórnarskráin.
Maður heyrir talað um að Þóra Arnórsdóttir sé að stinga aðra frambjóðendur í forsetakosningum af. Framboð hennar er að miklu leyti sprottið úr fjölmiðlum og það er greinilega mikil þekking á fjölmiðlum innanborðs – það er líka ástæða fyrir aðra frambjóðendur að óttast að hún hafi greiðari aðgang að fjölmiðlum en þeir.
En það er snjallt að gera það að fjöldaathöfn að safna undirskriftum fyrir frambjóðandann. Hingað til hafa menn gert slíkt í kyrrþey.
Einhver sagði að það væri mikilvægt að koma sér í umræðuna fyrir fjölskylduboðin á páskum og fermingarveislurnar.
Þetta kann að vera rétt, en hins er að gæta að það eru 83 dagar til kosninganna – og vonandi þurfum við ekki að fá yfir okkur kosningabaráttu allan þann tíma.