
Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei séð 79 af stöðinni áður – það var gaman að sjá myndina í sjónvarpinu í gær.
Áferðin á myndinni er sérlega skemmtileg – þessi andblær áranna í kringum 1960. Maður sér Ísland eins og það leit út þá og skynjar átökin sem voru í kringum flutninga fólks til Reykjavíkur og bandaríska herinn. Alls staðar glymur kanaútvarpið.
Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld eru sérlega þokkafull í aðalhlutverkunum. Tónlistin sem er samin af Sigfúsi Halldórssyni og Jóni bassa Sigurðssyni telst svo með helstu afrekum í íslenskri dægurtónlist.
Manni finnst alltaf jafn skrítið að svo vegleg mynd hafi verið gerð á Íslandi, um íslenskt efni á þessum tíma. Íslensk kvikmyndgerð var algjör eyðimörk löngu á undan og eftir.
En þessi mynd var gerð í norrænni samvinnu, leikstjórinn var heldur enginn aukvisi – hann hét Erik Balling og er einn vinsælasti maðurinn í kvikmyndasögu Dana. Balling stjórnaði tveimur af vinsælustu sjónvarpsseríum Danmerkur, Húsinu á Kristjánshöfn og Matador. Hann leikstýrði líka myndunum um Olsen-gengið og að auki Midt om natten með Kim Larsen, en það er vinsælasta bíómynd í sögu Danmerkur.
Verk Ballings eru sérlega manneskjuleg og hlý – og það skín líka í gegn í 79 af stöðinni. Þetta er perla í kvikmyndasögu okkar.
Og fyrir þá sem ekki vita er myndin byggð á samnefndri bók eftir Indriða G. Þorsteinsson, föður Arnaldar. Það er alveg óhætt að mæla með skáldsögum Indriða, sérstaklega 79 af stöðinni, Landi og sonum og Norðan við stríð. Þær fjalla flestar um átökin milli borgar og sveitar, en það var náttúrlega sá raunveruleiki sem Indriði ólst upp við – og raunveruleikinn Íslands á árunum eftir stríð þegar flestir borgarbúar voru í raun nýkomnir úr sveit.
Ég þyrfti einhvern tíma að finna viðtal sem ég tók við Indriða um átthagafélög. Þar fór hann alveg á kostum. Fólk er löngu búið að gleyma þessu, en á þessum árum voru það líflegustu félögin í Reykjavík, félög þar sem brottfluttir Skagfirðingar, Húnvetningar og Breiðfirðingar komu saman og hugsuðu heim.
