Eitt frægasta flopp kvikmyndasögunnar er Heaven´s Gate, vestri eftir Michael Cimino. Myndin eyðilagði feril leikstjórans og aðalleikarans, Kris Kristofferson.
Hún var alltof dýr, alltof stór – þegar framleiðendur myndarinnar náðu henni loks frá leikstjóranum var hún klippt í spað, það hefur jafnvel verið sagt að henni hafi verið slátrað á klippiborðinu.
Þetta var tími þegar ungir leikstjórar gerðu myndir sem voru afar stórar í sniðum, þeir fengu nánast frítt spil – Coppola lagði allt undir í Apocalypse Now, Spielberg hafði ekki misst ímyndunaraflið, Scorseese Terence Malick og Woody Allen voru að gera myndir eftir sínu höfði og voru ótrúlega ferskir, en Cimino var jafnvel talinn geta orðið þeirra mestur eftir Deer Hunter.
Það átti eftir að fara öðruvísi. Cimino fékk varla vinnu eftir Heaven´s Gate. Það voru skrifaðar bækur um hversu mikið hneyksli myndin átti að vera. Myndin batt endi á United Artist kvikmyndaverið, þótt nafnið sé ennþá til.
Þarna má jafvel segja að hafi lokið mestu gullöld bandarískrar kvikmyndagerðar í seinni tíð, sem var á áttunda áratugnum.
Í fyrra var Heaven´s Gate sýnd aftur á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í 216 mínútna útgáfu sem leikstjórinn gerði sjálfur. Og þá ber svo við að myndin fær nokkuð góða dóma. Það hefur jafnvel verið sagt að viðtökurnar við henni á sinni tíð séu eitt mesta óréttlæti kvikmyndasögunnar.
Þessi endurgerða útgáfa myndarinnar hefur síðan verið sýnd í New York og nú um helgina verður hún á dagskrá í kvikmyndahúsum í Bretlandi.
Það væri virkilega forvitnilegt að sjá Himnahliðið á breiðtjaldi hér á Íslandi. Þetta er mynd sem þolir illa að vera smækkuð niður á sjónvarpsskerm. Sjálfur hef ég ekki sé hana um langt árabil, en ég man eftir atriðum sem voru afar sterk.
Það væri þá allavega hægt að rifja upp þá tíð að enn voru gerðar kvikmyndir með listrænan metnað í Bandaríkjunum – fyrir fullorðið fólk.
Hér er plakatið fyrir myndina eins og það birtist í Bretlandi.