Umsagnir Seðlabankans og Samtaka atvinnulífsins vegna skuldaleiðréttingar eru áfall fyrir ríkisstjórnina.
Í stuttu máli segja Seðlabankinn og SA að ekkert vit sé í þessum áformum.
Þeim fylgi efnahagsleg áhætta, með þeim verði erfiðara að afnema gjaldeyrishöft og þau gagnist lítt þeim sem eiga við mestan skuldavanda að stríða.
Eiginlega er þetta falleinkun, en þarf kannski ekki að koma svo mjög á óvart. Margir sjálfstæðismenn höfðu uppi svipaðan málflutning fyrir kosningar.
Það verður líka erfitt að svara þessu með því að þarna sé einhver stjórnarandstöðuspuni.
Þrýstingurinn eykst á ríkisstjórnina að sýna fram á að hún geti komið þessu stærsta mál sínu í framkvæmd þannig að í því sé einhver vitglóra og þannig að hópar eins og til dæmis leigjendur séu ekki skildir eftir.