Það er mikið rætt um möguleikana á útbreiðslu ebólu á Vesturlöndum og maður finnur fyrir ótta – fjölmiðlarnir næra hann.
En tilefni er til að taka þetta í réttri röð. Líkurnar á að sjúkdómurinn breiðist út í Evrópu eða Bandaríkjunum eru litlar.
Hins vegar getur komið upp skelfingarástand í Vestur-Afríku. Sjúkdómurinn geisar í löndum þar sem innviðir eru hrundir eða hafa aldrei verið til staðar, þar sem læknisþjónusta er sama og engin eins og í Sierra Leone, Líberíu og Guineu. Þarna eru lönd sem eru bæði fátæk og stríðshrjáð.
Á slíkum stöðum er erfitt að hefta útbreiðslu sjúkdómsins, þótt það hafi tekist í fyrri tilvikum. Kannski er það ástæða þess að viðbúnaðurinn reyndist ónógur í þetta skipti. Það er hræðileg tilhugsun ef ebóla fer að geisa í borgum eins og Monroviu í Líberíu eða Freetown í Sierra Leone þar sem eru risastór fátækrahverfi.
Og enn verra ef hún berst til borga eins og Lagos í Nígeríu þar sem búa ótaldar milljónir.
Mikilvægast er að efla sóttvarnir, læknisþjónustu og hjálparstarf á þessum svæðum – eitt og eitt tilfelli ebólu sem kemur upp í Evrópu eða Bandaríkjunum er minna vandamál. En það fær meiri athygli í fjömiðlum.