Einu sinni var Sjálfstæðisflokkurinn afar menningarlegur. Hann hafði sína intelligensíu. Þar var fremstur í flokki ritstjórinn, skáldið og húmanistinn Matthías Johannessen. Nálægt flokknum voru jöfrar úr menningarlífinu eins og Tómas Guðmundsson og Kristján Karlsson. Mogginn var afskaplega menningarlegur. Sjálfstæðismenn heldu úti bókaforlaginu AB sem gaf fjölda frábærra rita.
Þessi þráður slitnaði ekki svo glatt – bæði Davíð Oddsson og Björn Bjarnason voru báðir í mjög góðu talsambandi við menninguna og listalífið.
En nú er eins og dofnað hafi yfir þessu. Maður verður ekki var við ýkja mikinn menningaráhuga innan Sjálfstæðisflokksins. Það er eins og flokksmenn telji að menningin sé stimpluð til vinstri og þannig hljóti það að vera – sem er einkennilegt í ljósi þess að sú menning sem við stundum er að miklu leyti háborgaraleg eins og Matthías og félagar skildu.
Í staðinn eru komnir menn eins og Elliði Vignisson sem dreifa um sig speki eins og að „listamenn séu ekki heilagar kýr“– hvað sem það þýðir – og vekur, að því virðist, fögnuð flokksmanna með þessu. Að minnsta kosti heyrir maður þá ekki andmæla því sem frá honum kemur í þessum efnum.