Það er sannkallað gleðiefni að eitt fegursta og merkasta hús Reykjavíkur skuli aftur fá sitt gamla nafn.
Nú fær að að heita Safnahúsið eins og í upphafi í stað hins óímunnberanlega nafns Þjóðmenningarhús.
Þjóðmenningarhúsið varð til upp úr einhverju furðulegu bralli í kringum aldamótin síðustu. Þá voru bæði Landsbókasafn og Þjóðskjalasafn flutt af Hverfisgötunni, fyrst var þá hugmyndin að fara með forsætisráðuneytið þarna inn – það var líkt og liður í viðleitni Davíðs Oddssonar til að samsama sig Hannesi Hafstein – en þegar það gekk ekki eftir var Þjóðmenningarhúsið stofnað.
Því miður hafði Þjóðmenningarhúsið aldrei neitt inntak. Þarna hefur verið reynt að setja inn einhverjar sýningar, en um leið hefur þetta verið ráðstefnu-, veislu- og kokkteilhúsnæði fyrir ríkið.
Þjóðmenningarhúsið hefur verið opið fyrir ferðamenn – á erlendum ferðavefsíðum má lesa að þetta sé einn af þeim stöðum í Reykjavík sem helst valda ferðamönnum vonbrigðum.
Nú er ætlunin að í Safnahúsinu verði sett upp sýning í samstarfi Þjóðminjuasafnsins, sem sér um rekstur hússins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafnsins, Landsbókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar.
Þarna er tækifæri til að ljá þessu merka húsi alvöru inntak – sem rímar við hið upprunalega hlutverk þess.