Tvær bækur úr hinum frönskumælandi heimi eru nú meðal hinna vinsælustu á Íslandi.
Þar er annars vegar bókin sem heitir því einkennilega nafni HhhH, þetta er komið úr þýsku og útleggst: Heili Himmlers heitir Heydrich.
Bókin fjallar um eitt mesta illmenni sögunnar, ljóshærða djöfulinn Reinhard Heydrich, hinn stórvirka böðul sem öðrum fremur skipulagði Helförina – en gekkst í leiðinni upp í að þykjast fágaður, var skylmingameistari og lék á fiðlu.
Í bókinn er sagt frá morðinu á Heydrich í Prag 1942, tilræðismönnunum, þeim sem aðstoðuðu þá – flestir tíndu lífinu – og manninum sem sveik þá. Og loks fáum við svo að vita um hinar hyllilegu hefndaraðgerðir vegna morðsins.
Þetta er ekki einföld frásögn, heldur er höfundurinn, Laurent Binet, sífellt að velta fyrir sér hvernig hann eigi að segja söguna, hann er að semja sögulega skáldsögu á sama tíma og hann segist ekki kæra sig um slíkar bókmenntir. Útkoman er magnað bókmenntaverk í afbragðs góðri þýðingu Sigurðar Pálssonar.
Hins vegar er það Sannleikurinn um mál Harrys Quebert eftir ungan Svisslending sem heitir Joel Dicker. Bókin hefur náð margfaldri metsölu í hinum frönskumælandi heimi, en í maí er hún væntanleg í Bretlandi og Bandaríkjunum. Bjartur gefur hana út í þýðingu Friðriks Rafnssonar.
Þetta er morðsaga, en líka mynd af smábæ í Bandaríkjunum sem minnir dálítið á Twin Peaks og í þokkabót er þarna bókmenntaleg ráðgáta.
Það eru eilífar vendingar í frásögninni, þegar maður heldur að hún hjóti að vera búin tekur sagan undir sig stökk og allt í einu sér maður atburðina í allt öðru ljósi. Bak við leynist glæpur sem mann grunaði alls ekki að væri glæpur.
Þetta er semsagt bókmenntalegur þriller, heilar 700 blaðsíður að lengd, en þess eðlis að maður getur ekki hætt að lesa, heldur flettir maður látlaust áfram út að bókarlokum og vill þá helst fá meira.