Utanríkisstefna Íslands er mótuð af Ólafi Ragnari Grímssyni forseta. Ríkisstjórnin lætur sér nægja að fylgja honum. Eins og sjá má á heimasíðu forsetaembættisins fundar Ólafur Ragnar með sendiherrum og leggur á ráðin um samskipti við ríki eins og Kína og Indland.
Utanríkisstefnan byggir á því sem kallaðist útflutningsleiðin á tíma Ólafs Ragnars í forystu Alþýðubandalagsins. þ.e. samskiptum við fjarlæg lönd, sérstaklega í Asíu, en að auki hefur bæst við áhugi á Norðurslóðum eins og heyra mátti í áramótaræðu forsetans.
Áhuginn á Evrópu og Bandaríkjunum er minni – jú, minni en í gervallri sögu íslenska lýðveldisins.
En við þurfum líka að skilja við hverja er að eiga.
Íslendingur situr í fangelsi í Kína og er beinlíns horfinn. Fjölskylda hans veit ekkert um afdrif hans. Meðferðin sem hann hefur mátt sæta er óralangt frá því sem tíðkast í réttarríkjum.
Á heimasíðu forsetans er einmitt mynd af honum með Pútín Rússlandsforseta.
Í dag er maður forviða yfir orðum Pútíns þar sem hann leggur samkynhneigð að jöfnu við barnagirnd. Þetta ber vott um óvenju spillt hugarfar – og kemur svosem ekki á óvart í því spillingardíki sem Rússland er undir stjórn þessa KGB-manns.