fbpx
Þriðjudagur 01.júlí 2025
Eyjan

Stöðugleiki í þágu fjármagnsins, borinn uppi af almenningi

Egill Helgason
Laugardaginn 4. janúar 2014 12:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðrik Jónsson skrifar mjög efnismikla grein hér á Eyjuna, kallar hana Nýársnöldur sem er óþarfa hógværð, greinin er full af atriðum sem er full þörf á að pæla í. Friðrik hefur áður vakið athygli fyrir að tala enga tæpitungu um efnahagsmál, hann var gestur hjá mér í Silfri Egils, en hann býr í Washington og starfar hjá Alþjóðabankanum.

Friðrik telur að það sé mjög ofmælt að kreppa sé búin á Íslandi, eins og sagt er í hátíðarræðum. Ástandið sé enn í hæsta máta óeðlilegt:

Skýtur þetta skökku við þar sem embætti sérstaks saksóknara er enn að störfum, gjaldeyrishöft eru enn við lýði og snjóhengjur eru enn með kverkatak á krónunni og hagkerfinu. Kreppan getur vel verið búin hjá hluta Íslendinga – og líklega er það svo að aldrei var kreppa hjá ákveðnum hópi fólks. Sumir fengu óumbeðið ríkisábyrgð á allar peningaeignirnar sínar með einu pennastriki, aðrir fengu sértæka skuldameðferð langt umfram aðra, og því miður virtist helst bera á skjaldborg sérhagsmunanna. Það að t.d. væri hægt að fara í gegnum heilt hrun þar sem ekki eitt einasta útgerðarfyrirtæki með kvótaeign, þrátt fyrir massífar yfirskuldsetningar, færi í eðlilega gjaldþrotameðferð, er fyrir ofan minn skilning. Líkast til vildi enginn, ekki einu sinni norræna velferðarstjórnin, fá úr því skorið í gjaldþrotameðferð hver raunveruleg eignarréttarleg staða kvótans er.

Friðrik telur að leiðréttingin sem skuldarar fá á næsta ári sé plús í kladda ríkisstjórnarinnar. Hún hefði þó þurft að koma miklu fyrr og vera stærri. Hann gerir lítið úr óttanum við verðbólguna og er gagnrýninn á hina miklu vernd sem fjármagnið nýtur á Íslandi:

Jafnframt verður að hafa í huga að væntanleg leiðrétting verður til lítils ef ekki er samhliða tekið á verðtryggingunni, því jú, hún er sérstakt vandamál, ekki bara verðbólgan sem slík.

Reyndar er ég á því að verðbólguóttinn sé stórlega útblásinn. Verðbólga gegnir mjög mikilvægu hlutverki í hagkerfinu þar sem hún hjálpar til við að stilla það af og leiðrétta.

Líta má á verðbólgu sem skatt á fjármagn. Þannig eru það fyrst og fremst hagsmunir fjármagnseigenda að berjast gegn verðbólgu, eða hafa verðtryggingu. Þess vegna heyrast þau rök helst frá tekju-og efnafólki að stilla verði launakröfum í hóf og hversu mikilvægt það sé að berjast gegn verðbólgunni – og þá líka að það sé verðbólgan sem sé vandamálið en ekki verðtryggingin.

Hið sorglega er að það sem milljónkallarnir óttast helst er að  það verði til fleiri milljónkallar. Raunveruleg ástæða baráttu forréttingastéttarinnar gegn verðbólgu er að ef fleiri hafa það jafn gott og þau þá hafa þau það hlutfallslega verr og að aukin velferð annarra dragi, með einum eða öðrum hætti, úr þeirra eigin velferð! Með örðum orðum, þá gæti aukin velferð annarra hugsanlega ýtt undir verðbólgu og þannig tapar forréttindastéttin. Betra er þess vegna að forréttindastéttin haldi sínu og að hinum sé haldið niðri – að hinir gæti hófs…!

Fyrir efnaminna fólk er það í reynd tóm þvæla að „baráttan gegn verðbólgunni“ skipti þau einhverju máli. Ef út í það er farið hefur hagvöxtur aldrei verið meiri, og tekjuskipting og ójafnræði aldrei minna, en fyrir tíma verðtryggingar, þjóðarsáttarsamninga og verðbólgumarkmiðs í stjórn peningamála. Tölfræðin styður þetta. Hagvöxtur var meiri að meðaltali frá stríðslokum fram að verðtryggingu, en árin þar á eftir – og jafnræðið meira.

Friðrik gerir stöðu lífeyrissjóðanna einnig að umtalsefni.

Reynt hefur verið að selja okkur almenningi þá hugmynd að við séum í raun öll fjármagnseigendur vegna sameignar okkar í lífeyrissjóðunum. Samt er það sorglega við þá sjóði, fyrir utan kannski lífeyrisjóð ríkisstarfsmanna, að í þeim felst ekkert garantí um framfærslu í ellinni, og stór hluti fólks fær – og mun fá – lítið meira út úr þeim en það fengi úr almannatryggingum. Reynt er að svindla í sjóðunum í dag með því að stela af framtíðinni og í raun ætti hver einasta manneskja undir fertugu að þverneita að taka þátt í þessu kerfi. Það fólk mun ALDREI fá til baka það sem þau leggja til. Stjórn sjóðanna er síðan sérkapítuli, en það að atvinnurekendur sitji í stjórnum þeirra er út í hött og enn eitt dæmið um undanlátsemi. Atvinnurekendur eiga ekki lífeyrissjóðina og eiga ekki að hafa neitt að segja um rekstur þeirra eða fjárfestingar – ekki frekar en að þeir eigi að ráða því hvað starfsfólk þeirra verslar sér í kvöldmat eða hvaða bíl það kaupir.

Nei, baráttan gegn verðbólgunni er að hluta til enn ein útgáfa af kröfu fjármagnseigenda um það að bera lægri byrðar af rekstri samfélagsins. Hærri hagvöxtur þýðir ekki lengur að sjálfvirkt fylgi  aukin atvinna og auknar tekjur. Það er þannig af sem áður var og ef eitthvað er virðist aukin hagvöxtur í dag leiða til meiri misskiptingar. Brauðmolakenningin afsannast þannig enn einn ganginn.

Í niðurlagi greinar sinnar ræðir Friðrik Jónsson um skuldastöðu Íslands og telur vandann að sumu leyti ofmetinn. Hann megi leysa með einföldum aðgerðum, meðal annars nefnir hann þetta:

Núverandi efnahagsvandi Íslands er í sjálfu sér ekki flóknari en svo að ekki megi leysa hann t.d. með mjög prógressífum (og tímabundnum) aðgerðum í skattamálum. Aumingjaskapur síðustu ríkisstjórnar t.d. varðandi auðlegðarskattinn er gott dæmi. Ef strax 2009 hefði verið t.d. tekin einskiptisskattur á allar hreinar eignir umfram 50 millur upp á t.d. 30% (og þess vegna 50% á peningaeignir umfram milljarð) hefði enginn sagt múkk, enda allir í losti eftir hrunið. Eftir því sem lengra líður frá hruni magnast frekjan í forréttindastéttinni – hún heimtar meira og vill leggja minna til. Skýrasta dæmið er tapaða málsóknin gegn auðlegðarskattinum.

Því til viðbótar er kostnaður almennings af 100% innistæðutryggingum, sértækum skuldaniðurfellingum og gjaldeyrishöftunum verulegur, því þær aðgerðir hafa meðal annars gefið „the usual suspects“ færi á að margeflast í eignaupptökum á kostnað hinna.

Og ennfremur:

Skuldir vegna banka- og peningakerfisins eru 170 milljarðar vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans og 250 milljarðar vegna endurreisnar bankakerfisins. Hér er um að ræða skuld í íslenskum krónum sem er í reynd bara búin til í bókhaldi ríkisins og Seðlabankans. Hvað varðar t.d. tæknilegt „gjaldþrot“ Seðlabankans þá var aldrei nein þörf á því að færa það á ríkissjóð. Sá halli hefði getað hvílt á efnahagsreikningi bankans, þess vegna næstu hundrað árin, þ.e.  fjármagna mátti „tapið“ með eigin rafrænni seðlaprentun bankans sem eingöngu hefði verið til á efnahagsreikningi hans.

Á sama hátt hefði verið hægt að endurreisa bankakerfið. Það hefði verið hægt að gera „off the books“ í gegnum Seðlabankann, eða „misnota“ Bankasýslu ríkisins í þeim tilgangi. Bókhaldsæfingar af þessu tagi, til þess einmitt að hlífa ríkissjóði, hafa verið stundaðar t.d. bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum í kjölfar krísunnar 2008. Í  reynd er ennþá hægt að gera þetta og þurrka út aðra 420 milljarða af skuldum ríkisins. Skuldirnar væru þá komnar niður í 780 milljarða, eða 44% af VLF – sem í stóru myndinni eru bara salthnetur…!

En svona eru skuldir ríkissjóðs settar fram og notaðar ásamt verðbólgugrýlunni til að hrella okkur almenning til hlýðni og til þess að vera ekki að heimta of miklar kauphækkanir. Þið vitið, til að tryggja stöðugleikann…!

Stöðugleika sem er fyrst og fremst í þágu fjármagnsins og borinn uppi af breiðum bökum almennings.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorbjörg Sigríður: Ríkisstjórnin klárar stóru málin – fólk kann að meta breytingarnar sem fylgja stjórninni

Þorbjörg Sigríður: Ríkisstjórnin klárar stóru málin – fólk kann að meta breytingarnar sem fylgja stjórninni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ingu blöskraði – „Er hann að segja að kvótakóngarnir eigi sjávarauðlindina??“

Ingu blöskraði – „Er hann að segja að kvótakóngarnir eigi sjávarauðlindina??“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Tillaga um lækkun fasteignagjalda í Reykjavík óábyrg og ótímabær

Tillaga um lækkun fasteignagjalda í Reykjavík óábyrg og ótímabær