
Ég þykist alveg viss um að Ólafur Ragnar Grímsson er oft í vondum félagsskap. Hann var það fyrir hrun með bankamönnunum og svo er hann einn aðalmaðurinn í Arctic Circle, sumir sem þar eru geta ekki talist góðir pappírar.
Honum finnst gaman að gera það sem á ensku kallast hobnobbing með fínu fólki og auðugu. Það er ekkert nýtt.
Í fjölmiðlinum Stundinni má lesa að Ólafur hafi snætt kvöldverð með stjórn Goldman Sachs-bankans í staðinn fyrir að vera á Arnarhóli til að fagna því að 35 ár eru síðan Vigdís Finnbogadóttir var kjörinn forseti.
Ég er samt ekki viss um að staður Ólafs Ragnars hafi verið þar. Mér sýnist flest benda til þess að þessi samkoma hafi verið haldin af fólki sem telur að Vigdís sé „forsetinn sinn“ og að gestir hafi upp til hópa verið þess sinnis, jafnvel þótt Ólafur hafi verið kjörinn fimm sinnum í embættið.
Og svo er náttúrlega spurning hvort Vigdís var sérlega spennt fyrir því að hafa hann með?