

Þegar ég var ungur rann upp tími proggrokksins. Þessi tónlistarstefna hefur fengið frekar neikvæða útreið – sérstaklega eftir að pönkið kom til sögunnar – en proggið skýrðist einkum út af því að sumir rokktónlistarmenn voru farnir að ná allnokkru valdi yfir hljóðfærum sínum og fannst kannski lítið varið í að spila alltaf sama taktinn og sömu örfáu hljómana.
Ég hef alltaf haldið dálítilli tryggð við proggið – enda hef ég einhvers staðar séð að tónlistin sem maður heldur upp á þegar maður er fjórtán ára fylgi manni alla tíð.
Ég eignaðist fyrstu plötuna með Yes þegar ég var í tólf ára bekk í Melaskóla. Það var Fragile. Ég man eftir að hafa verið með hana nýkeypta í porti skólans. Manni fannst þetta hrikalega útpæld tónlist, og svo kom Close to the Edge og síðar hið afar metnaðarfulla verk Tales from Topographic Oceans. Þá var farið að fjara dálítið undan progginu – nokkru síðar þótti það fjarska hallærislegt. Genesis breyttist í popphljómsveit, Yes náði aðeins að endurnýja sig með samstarfi við fyrrum meðlimi nýbylgjuhljómsveitarinnar Buggles.
Á blómaskeiði þessarar tónlistarstefnu voru proggarar ekki á eitt sáttir um hverjir væru bestu hjóðfæraleikararnir, í því var mikið pælt, en varla nokkur efaðist þó um að besti bassaleikarinn væri Chris Squire í Yes. Hann er nú látinn úr hvítblæði, 67 ára að aldri. Squire var fyrst í hljómsveitinni Syn – þar sem Gunnar Jökull Hákonarson sat við trommusettið um hríð. Hann var svo stofnfélagi í Yes og lék með hljómsveitinni nánast alla tíð, mannabreytingar voru mjög tíðar en Squire var yfirleitt með. Ég sá hljómsveitina aldrei á sviði, en á myndböndum má sjá að það er Squire sem keyrir bandið áfram og heldur öllu saman með sínum einstaka bassastíl.
Hér er Chris Squire á sviði með Yes í klassísku progglagi, Roundabout.