
Það var náttúrlega ekki von á að skýrsla Rögnunefndarinnar svokallaðar yrði til að lægja öldurnar eitthvað í flugvallarmálinu. Íslendingar una því illa að vera sviptir þrasinu sínu. Allir eru í sömu skotgröfunum, ekkert breytist. Og menn virðast gleyma því, eða ekki vilja vita, að nefndin átti ekki að skoða Keflavík sem valkost.
Guðmundur Löve rekstrarhagfræðingur skrifar um skýrsluna á Facebook og dregur saman helstu efnisatriði hennar:
Búinn að lesa skýrslu Rögnunefndarinnar frá orði til orðs. Raunveruleg skilaboð hennar má líklega finna í 11. kafla: Að sameina innanlands- og útlandaflug á einum stað sparar öllum þjóðfélagshópum um 50 milljarða núvirt yfir 50 ár, og brotthvarf vallarins úr Vatnsmýri aðra 50. Þá er ótalinn sparnaður vegna samlegðar í rekstri sem vel má ímynda sér að nemi svipaðri tölu núvirt yfir sama tímabil, þótt það hafi ekki verið reiknað.
Gömul bitbein eins og sjúkraflug og varaflugvöllur eru gjörsamlega jörðuð: Jafnvel miðað við núverandi legu Landspítala lengjast sjúkraflutningar aðeins úr 150 í 160 mínútur að meðaltali (og auðvitað verður nýr LSH byggður annars staðar hvort sem er, t.d. á Vífilsstöðum, auk þess sem ýmsar fleiri mótvægisaðgerðir má sjá fyrir sér). Þá yrði heildarkostnaður flugfélaganna vegna aukinna eldsneytisbirgða vegna fjarlægari varaflugvalla aðeins um 150 millj. á ári, sem er brotabrotabrot af þjóðhagslega ábatanum.
Varðandi staðsetningu virðist Hvassahraun vera eini raunhæfi staðurinn út frá niðurstöðum skýrslunnar. Verst að nefndinni var meinað að skoða Keflavík.