

Í dag eru liðin 45 ár – já, það er satt – frá því hljómsveitin Led Zeppelin lék á Íslandi. Það var 22. júní 1970.
Þetta eru sögufrægustu rokktónleikar Íslandssögunnar. Ekki fyrr né síðar hefur svo stór hljómsveit leikið hér, og það þegar hún var á fljúgandi ferð á toppinn. Zeppelin er einfaldlega á topp fimm mestu rokksveita allra tíma.
Hér er skemmtileg mynd. Hún sýnir biðröð fyrir utan hús í Traðarkotssundi – þar voru seldir miðar á Zeppelintónleikana. Röðin náði upp á Laugaveg, um Ingólfsstræti og niður á Hverfisgötu. Myndin er úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur og segir að hún sé tekin af Þorgrími Gestssyni.

Mér þykir furðuleg tilhugsun að hafa verið þarna, tíu ára gamall. Ég tók út mjög skjótan þroska í poppi og rokki á þessum árum. Mér sýnist að fremst til vinstri á myndinni sé Júlíus Valsson, síðar læknir. Bróðir hans Kristján var vinur minn, og það var í plötusafni Júlíusar að við kynntumst margri snilldinni.
Og svo er hérna skemmtilegt myndband. Þrír eftirlifandi Zeppelin meðlimir voru heiðraðir í Kennedy Center í New York fyrir fáum árum. Hér má sjá Robert Plant fella tár þegar hann heyrir flutning hljómsveitarinnar Heart á laginu sígilda, Stairway to Heaven.