fbpx
Sunnudagur 16.nóvember 2025
Eyjan

Grikkland á brún hyldýpis

Egill Helgason
Mánudaginn 22. júní 2015 08:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér í Aþenu virðist allt með kyrrum kjörum. Borgin er full af túristum – Kínverjar hafa verið mjög áberandi síðustu árin. Þeir koma og fara á helstu ferðamannastaði, en eiginlega aldrei út fyrir þá. Rússar eru færri en verið hefur vegna þess hversu rúblan er lág. Rússanna er saknað, þeir eru mjög eyðslusamir.

Síðustu ár hafa samt verið metár í ferðamennsku í Grikklandi, eins og víðar í heiminum.

Ferðamenn velta náttúrlega fyrir sér eins og aðrir hvað verði um gríska hagkerfið nú þegar sagt er að komið sé að ögurstundu. Maður sé þó engar biðraðir við hraðbanka og ekki verður vart við að þar sé peningaskortur, þrátt fyrir áhlaupið á grísku bankana fyrir helgi.

En Aþena hefur látið verulega á sjá síðustu árin. Enn eru hér ríkmannleg hverfi eins og Kolonaki, þar sem eru búðir með lúxusvarningi, og vöruhúsið Attica selur margvíslega merkjavöru. En hverfi snauðara fólks eru mörg býsna dapurleg, búðir eru lokaðar, búið að krota á veggi og hlera, allt að verða niðurníðslu að bráð. Á einstaka stað er spyrnt aðeins í móti – þar hefur opnað kaffihús eða veitingastaður og þar situr ungt fólk sem reynir að gera gott út öllu.

En framtíðin er ekki björt með fjöldaatvinnuleysi og linnulausri tekjuskerðingu. Þetta er eins og stundum áður í sögu Grikklands – líklega er best fyrir unga fólkið að koma sér á brott.

Það fer miklum sögum af því í Norður-Evrópu að Grikkir lifi í vellystingum praktuglega á félagslegum bótum – og að þeir fari á eftirlaun á unga aldri. Staðreyndin er samt sú að hér eru bótakerfi léleg, upphæðirnar eru mjög smáar, og fátækrahjálp í skötulíki. Það var búið að koma hér upp þokkalegu heilbrigðiskerfi, einkum á tíma stjórnar sósíaldemókrata, en því hefur hnignað líka. Mér finnst ég sjá fleira geðfatlað fólk á götunum en áður.

Nú er talað um að verði að taka ákvörðun um hvort Grikkland eigi að vera áfram í evrunni. Auðvitað voru mistök þegar Grikkland fékk að fara þangað inn á sínum tíma, þjóðin var ekki tilbúin fyrir það og ekki heldur Evrópusambandið sem er alltof ólíkt innbyrðis til að sameiginlegur gjaldmiðill virki. (Bandaríkin myndu aldrei senda Mississippi eða Nebraska út úr dollaranum.)

En Grikkir vilja ekki fara út, og þetta er orðið of seint. Fjármagn er á flótta úr landinu vegna óttans við að skyndilega verði hætt að nota evruna. Þá myndi gíska stjórnin þurfa að fara að prenta drökmur og koma þeim í umferð. Það er hægara sagt en gert á tíma rafrænnar greiðslumiðlunar. Nýja drakman myndi líklega sökkva sem steinn fyrstu dagana, hún yrði mjög verðlítil, það yrði óðaverðbólga, Grikkir myndu hætta að hafa efni á olíu, bensíni, innfluttum matvælum og fleiri nauðþurftum.

Ef að líkum lætur yrði þetta algjör kastastrófa, bæði fyrir Grikkland og Evrópusambandið. ESB myndi þurfa að senda neyðaraðstoð í stórum stíl, eins og inn á hamfaraasvæði, allir fjölmiðlar heims myndu fyllast af myndum af þjáningum grísku þjóðarinnar.

Þetta verður léleg auglýsing fyrir ESB. Og þá geta menn spurt hvaða ríki verður næst látið róa?

Þau ná ekki vel saman Tsipras og Varoufakis annars vegar og  Merkel og Juncker hins vegar. Forysta ESB átti munauðveldara að tala með að tala við gamla spillta liðið í Nea Demokratia og Pasok en Syriza. Vandi Syriza er náttúrlega að hvað hópurinn er sundurleitur – hann getur ekki einu sinni komið sér saman um endurbætur í spilltu ríkiskerfi sem hann bjó ekki til sjálfur.

Allt þetta fólk er búið að þrengja stöðu sína með stórum og oft heimskulegum yfirlýsingum. Það er spurning hvort þeim tekst að komast burt frá þeim – hvort geti orðið til samningar sem eitthvað vit er í. Það er sjálft eðli Evrópusambandsins að reyna að semja um öll mál, að forðast átök. Ef Grikkland verður sent út yfir brún hyldýpisins verður það hrikalegur álitshnekkir fyrir ESB – kannski sá stærsti í sögu þess.

Þá er líka spurning um pólitíska stöðu Tsipras. Ef honum tekst ekki ætlunarverk sitt, að bæta stöðu Grikkja gagnvart lánveitendum, ESB og alþjóðasamfélaginu, má kannski segja að hans tíma sé lokið. Þá ætti hann að draga sig í hlé. Eins og bent er á í pólitískri umfjöllun hér í landi hefur Tsipras ekki umboð til að kollsteypa utanríkisstefnu Grikklands.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Rósa sat sinn síðasta bæjarráðsfund og lagði fram tillögu sem hún hefur gengið með í 3-4 ár

Rósa sat sinn síðasta bæjarráðsfund og lagði fram tillögu sem hún hefur gengið með í 3-4 ár
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigurður Hólmar skrifar: Ísland sofandi á meðan heimurinn vaknar

Sigurður Hólmar skrifar: Ísland sofandi á meðan heimurinn vaknar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins

Dagur B. Eggertsson: Þurfum að bregðast við gagnrýni Mannréttindadómstólsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur fækkar og okkur fjölgar