
Það sama gerist í Danmörku og í Bretlandi um daginn.
Þegar talið er upp úr kjörkössum kemur í ljós að hægrið hefur meira fylgi en sagði í skoðanakönnunum.
Hver sem kann að vera skýringin á því – er fólk kannski hræddara við að gefa sig upp á hægri væng en vinstri væng?
Þetta gerist þrátt fyrir að Helle Thorning-Schmidt njóti mun meira trausts meðal kjósenda en Lars Lökke Rasmussen.
Helle hefur verið að sækja í sig veðrið í stjórnmálum eftir að hafa verið mjög óörugg fyrstu misserin sem forsætisráðherra.
Í Danmörku ríkir dæmalaus velmegun. Samt kjósa Danir Lars Lökke sem forsætisráðherra.
Hann er heldur lítilsigldur náungi, ósjarmerandi og hefur tilhneigingu til spillingar – sem er óvenjulegt í dönskum stjórnmálum. Hann hefur áður verið forsætisráðherra, tók við af Anders Fogh Rasmussen, þeim hinum sama og lét Bush og Blair teyma sig á asnaeyrunum og fékk að launum framkvæmdastjórastöðu hjá Nató.
Lökke mun stjórna með atbeina Danska þjóðarflokksins – eins rasískasta stjórnmáaafls á Norðurlöndunum. Þótt hann sé forsætisráðherraefnið virðist Þjóðarflokkurinn ætla að verða stærri en Venstre, flokkur Lökkes. Venstre missir fylgi, en Þjóðarflokkurinn bætir við sig. Það er býsna skuggalegt, ítök flokksins í stjórninni verða mjög mikil ef fer sem horfir. Andúð á útlendingum hefur spilað stórt hlutverk í stjórnmálum í Danmörku um nokkuð langt skeið.
Þá eru rasískir flokkar komnir með hönd á stjórnartauma á tveimur Norðurlandanna, í Danmörku og Finnlandi þar sem hinir fáránlegu Sönnu Finnar eru með í samsteypustjórn og hafa sjálfan utanríkisráðherrann úr sínum röðum. Ekki má heldur gleyma Noregi þar sem Framfaraflokkurinn er í stjórn – hann er allnokkuð mildari útgáfa af áðurnefndum flokkum.