
Mótmælendur á Austurvelli í dag bauluðu á stúlkur í Graduale-kórnum. Maður les það í fjölmiðlinum Stundinni að það að vera hugsi yfir mótmælum 17. júní sé að taka afstöðu með yfirstéttinni gegn „skrílnum“.
Graduale-kórinn er líklega það sem kallast collateral damage á ensku. Mestur var hávaðinn þegar hann söng Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu og Emil Thoroddsen. Mótmælin beindust þó aðallega gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
Ákveðinn hluti þjóðarinnar þolir hann ekki, er með algjört ofnæmi fyrir honum. Þar fara fremst Stundin og Gunnar Smári Egilsson.
Í huga þessa fólks er allt sem Sigmundur gerir vont og leiðinlegt. Þegar ríkisstjórn hans tekst vel upp eins og í samningum við kröfuhafa bankanna er allt kapp lagt á að sýna að hann eigi engan hlut að máli.
En svo á Sigmundur sína stuðningsmenn eins og Vigdísi Hauksdóttur og Guðna Ágústsson. Vigdís telur hann vera mesta mikilmenni íslenskrar stjórnmálasögu.
Þess má svo geta að á þjóðhátíðardaginn var skýrt frá því að í alþjóðlegri úttekt telst Ísland vera friðsælasta land í heimi.