

Kópavogsfundurinn 1851, nei, Guðni, það var Þjóðfundurinn.
Kópavogsfundurinn var haldinn 1662 og hann var sannarlega sorglegur því þá undirgengust Íslendingar einveldi Danakonungs. Þetta var tími einveldiskonunga hvarvetna í álfunni. Og sagt var Árni Oddsson lögmaður að hefði grátið þegar hann skrifaði undir eiðstafinn – það kann þó að vera síðari tíma þjóðsaga.
Í Kópavogi, rétt hjá Hafnarfjarðarveginum, stendur steinn til minningar um þetta.
Þjóðfundurinn var haldinn á Sal hins nýbyggða Menntaskóla í Reykjavík 1851. Þar höfnuðu Íslendingar, undir forystu Jóns Sigurðssonar, afar frjálslyndri og framfarasinnaðri stjórnarskrá sem var verið að innleiða í Danmörku í kjölfar falls einveldisins. Sú stjórnarskrá var undir áhrifum frá frelsishreyfingum á fyrri hluta 19. aldar, byltingunum 1830 og 1848.
En Íslendingar gátu ekki sætt sig við stjórnarskrá þar sem þeir voru hluti af danska ríkinu – þeir töldu að þeir heyrðu einungis undir Danakonung. Það er alls ekki útilokað að Íslendingum hefði vegnað betur með nýju stjórnlögunum, en þeir völdu að fara aðra leið.
Þannig að þetta var allt pínu þvælið.

Á upplýsingavef um Kópavog má lesa þennan texta um helsta sögulega atburð sem hefur orðið þar í bæ.