

Á vefnum Gamlar ljósmyndir birtist þessi mynd af ísbirni í Sædýrasafninu sem eitt sinn var í Hafnarfirði – langleiðina út undir álver. Þarna voru ýmis dýr í lengri eða skemmri tíma, en ísbirnirnir voru aðalaðdráttaraflið.
En margir minnast þessa staðar með hryllingi. Aðbúnaðurinn var afar vondur, eins og reyndar má greina á myndinni. Ísbjörninn er ofan í þröngri steyptri gryfju.
Sumir sem gera athugasemd við myndina á Facebook segja að starfsemin hafi verið til skammar. Um einn ísbjörninn segir:
Einn þeirra var orðinn geðveikur; gekk stanslaust sama hringinn með sömu hljóðunum.
Og önnur ummæli eru svona:
Sóðaskapurinn meiri en orð fá lýst og greinilegt að dýrunum leið illa, enda var þessu á endanum lokað. Þá glöddust margir.
