
Það er nánast súrrealískt að það verði hugsanlega Hillary Clinton og Jeb Bush sem berjast um forsetastólinn í Bandaríkjunum.
Jeb, bróðir fyrrverandi Bandaríkjaforseta og sonur annars forseta.
Hillary, eiginkona fyrrverandi forseta.
Þetta virkar frumstætt. En svo er náttúrlega það sem er aðalatriði í þessu, það eru peningarnir sem ráða. Þetta fólk á auðvelt með að safna peningum frá stórfyrirtækjum og moldríkri elítu.
En það tryggir líka að nauðsynlegar breytingar verða ekki gerðar á bandarísku samfélagi.
Jeb lendir sjálfsagt í vandræðum við að verja gjörðir bróður síns, eins versta forseta Bandaríkjanna fyrr og síðar. Manns sem laug Bandaríkin inn í stríð sem hafa valdið ómældum skaða og verið Bandaríkjunum gríðarlegur álitshnekkir.
Hillary er ekki spennandi kostur heldur, þótt hún sé skárri en Jeb. Hún var heldur lélegur utanríkisráðherra á fyrra kjörtímabili Obamas – og víst er að hún mun aldrei gefa neitt eftir í stuðningi sínum við Ísrael. Öll stefnan í Miðausturlöndum, þeirri miklu púðurtunnu, mun halda áfram að miðast við hagsmuni þess ríkis.