

Þessi mynd er tekin fyrr í dag í Pompei. Ég hef ekki komið þangað áður. Bara lesið helling um hamfarirnar þar árið 79. Það sem kemur einna mest á óvart er hversu eldfjallið, Vesúvíus, er sakleysislegt – og hvað það er nálægt.
Pompei sýnir að Rómverjar voru snjallir skipuleggjendur borga, en þeir vissu ekkert um eldfjallafræði. Grunaði ekki að Vesúvíus væri virkt eldfjall.
Skemmtilegasta bókin um Pompei er líklega samnefnd skáldsaga Roberts Harris. Eitt snjallræði hans er að hafa starfsmann vatnsveitunnar sem eina aðalsöguhetju. Hann er uppi í fjallinu að kanna veitumál þegar hann verður var við að eitthvað óvenjulegt er á seyði.
Svo er náttúrlega merkilegt að sjá þessa miklu byggð sem er í kringum virkt eldfjall. Þetta er þéttasta byggð kringum eldstöð í heiminum. Á svæðnu búa þrjár milljónir manna. Þetta getur farið illa – því sprengigos geta orðið í Vesúvíusi. Lýsingarnar á gosinu 79 eru rosalegar þá flæða eiturgufur og gjóska niður fjallshíðarnar og allt beinlínis stiknar og grefst svo undir.
En samt er fjallið svo sakleysislegt og náttúran í kring svo ægifögur með Napólíflóa, fjöllum og hæðum og trjágróðri sem nær lengst upp í hlíðarnar. Fjallið er þjóðgarður og hægt að ganga þangað upp.
Síðasta stóra gosið í Vesúvíusi var á árum heimstyrjaldarinnar, 1944.
