
Lögin á verkfall hjúkrunarfræðinga eru afar sorgleg. Hér sjáum við tvö dæmi um hvernig umræðan hefur sums staðar verið um þessar verkfallsaðgerðir, báðir mennirnir delera, sá síðari þó sýnu meir en sá fyrri. Lára Hanna klippti þetta saman.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, skrifar af skynsemi sem er ólík fornaldartuðinu í hinum tveimur:
Lög á verkföll heilbrigðisstarfsmanna er ekki leiðin til að halda í fyrstaflokks heilbrigðiskerfi. Það setur fyrstaflokks heilbrigðiskerfi í hættu.
Ef þú stjórnar landinu þá setur þú ekki lög á verkfall heilbrigðisstarfsmanna sem geta fengið allt að tvöfalt betri laun fyrir minni vinnu og betri aðstöðu til að hjúkra fólki í nágrannaríkjunum.
Ef þú stjórnar skattfé landsmanna þá forgangsraðar þú því í fyrstaflokks heilbrigðiskerfi eins og 90% landsmanna vilja óháð flokki, kjördæmi, aldri, menntun eða efnahag. Það þýðir að hækka þurfi laun heilbrigðisstarfsmanna nóg til að halda í þá og fyrsta flokks heilbrigðiskerfið.
Í síðustu fjárlögum vantaði 3 milljarða í heilbrigðiskerfið samkvæmt forsvarsmönnum allra heilbrigðisstofnana landsins. Þessir fjármunir voru til, enda fjárlögin hallalaus upp á 3,4 milljarða.