

Ég hef stundum reynt að leggja Bíó Paradís lið í skrifum hér á vefinn. Ég er sjálfur gamall kvikmyndaáhugamaður og kvikmyndaskríbent – og ég hef sterkar meiningar á því að nauðsynlegt sé að sýna aðrar kvikmyndir en koma úr hinum ameríska meginstraumi.
Bíó Paradís hefur sinnt því hlutverki með ágætum undanfarin ár. En fjárhagurinn hefur alltaf verið veikur, og stundum hefur legið við að starfsemin færi í þrot. Að miklu leyti er þetta hugsjónastarf.
Nú eru uppi miklar kröfur um að Bíó Paradís bæti aðgengi fatlaðra. Þetta er talið nauðsynlegt, meðal annars vegna þess að bíóið sinnir skólasýningum. En þetta er ekki auðvelt fyrir fjárvana félag sem þarf að bera allan kostnaðinn af framkvæmdunum sjálft.
Bíó Paradís er í gamla Regnboganum, húsi sem var byggt 1977, fyrir tímann að menn fóru að hugsa út í að fatlaðir ættu að hafa góðan aðgang að byggingum. Regnboginn var þá fyrsta fjölsalabíó á Íslandi.
Bíó Paradís er að reyna að safna peningum á Karolina Fund svo hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir. Þetta gengur ágætlega en betur má ef duga skal. Söfnuninni lýkur á miðnætti í kvöld.
