
Þingmaðurinn Frosti Sigurjónsson er að mörgu leyti skemmtilegur stjórnmálamaður. Hann er á allt öðrum stað en aðrir pólitíkusar á Íslandi.
Stundum er erfitt að átta sig á því hvort Frosti sé til hægri eða vinstri – enda eru mörkin að sumu leyti óljós núorðið. En Frosti er mikið á móti Evrópusambandinu, hugsanlega mætti segja að hann sé andstæðingur hnattvæðingar, hann er mjög gagnrýninn á peningakerfi nútímans, vill þjóðpeningakerfi þar sem einungis Seðlabanki sér um peningasköpun, hann er andsnúinn bankabónusum, vill að ríkið eigi Landsbankann sem verði einhvers konar samfélagsbanki.
Og nú er hann andsnúinn því að íslenskir bankar verði seldir útlendingum – manni skilst að sala á Íslandsbanka sé yfirvofandi. Frosti telur að þetta muni gera erlendum aðilum kleift að taka stórar fjárhæðir í gjaldeyri út úr landinu – Frosti er mikill stuðningsmaður íslensku krónunnar en veit að gjaldeyrisjöfnuður er viðkvæmur.
Allt eru þetta mjög athyglisverðar skoðanir – og mætti jafnvel telja að sumar séu býsna langt til vinstri. Líklegt er að Frosti nái litlu af þessu fram, en það er nauðsynlegt að einhver maldi í móinn gagnvart fjármálakerfinu. Því er ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir Frosta. Sigmundur Davíð mun samt ekki leggja mikið á sig til að hugmyndir hans verði að veruleika, enda er þar Sjálfstæðisflokknum að mæta.