

Hér er merkileg ljósmynd frá Lækjartorgi af vefnum Gamlar ljósmyndir, líklega tekin á fyrri hluta sjöunda áratugarins. Sjónarhornið er af blettinum framan við Stjórnarráðið og það er athyglisvert að öll mannvirki á myndinni eru horfin, nema styttan af danska kónginum Kristjáni IX.
Yst til vinstri á myndinni er stórhýsið sem hýsti Thomsens magasín og síðar Hótel Heklu, svo er litla lengjan með ljósmyndabúð, úrsmið og Aðalabúðinni svokallaðri. Yst til vinstri er svo bensínstöð Esso sem lengi var í Tryggvagötu.

Kristján IX var kallaður „tengdafaðir Evrópu“ og hann var fyrsti konungurinn sem sótti Ísland heim. Ég fjallaði dálítið um hann í Bókum & stöðum í Kiljunni í vetur. Eftirfarandi texti er þaðan, en þarna má lesa hvernig skáld smjöðruðu fyrir kóngi en Vestur-Íslendingar vildu ekki leggja lið söfnun til að reisa styttu af honum.
Enginn konungur kom til Íslands fyrr en 1874, á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar þegar Kristján IX lagði leið sína hingað til að heilsa upp á þegna sína. Við getum séð fyrir okkur hálfdanskan smábæ, lágreistan og gróðurvana, með dönskum fánum, honum er lýst í Þegar kóngur kom eftir Helga Ingólfsson:
“Þetta var svo sannarlega hátíðlegt tækifæri. Við hvert betra hús bæjarins blakti Dannebrog við hún, en hjá tómthúsunum var fánastengur ekki að finna og þar höfðu menn fest flaggið á þurrktrén sem annars skörtuðu daglega skinnstökkum og sjóbrókum. Kransar og sveigar úr þurrkuðu lyngi og íslenskum smáblómum héngu víða uppi, mest áberandi á Dómkirkjunni. Skrautlegast var þó um að litast á bryggjunni sjálfri. Þar var teppalagt með marglitum ábreiðum neðan frá enda og upp að gatinu sem lá þvert gegnum Bryggjuhúsið eins og hlið sæfarenda að Reykjavík.”
Kristján IX hefur alla tíð síðan verið í miklu dálæti hjá Íslendingum. Hann kom með fyrstu stjórnarskrána, frelsiskrá í föðurhendi, eins og Matthías Jochumsson orðaði það. Þjóðskáldin kepptust við að ausa hann lofi – og má jafnvel greina samkeppni þeirra á milli um að hafa lofið sem ógurlegast. Benedikt Gröndal orti:
Þitt konungshöfuð krýni æ
vor kvæðadís,
á meðan glampar só á sæ
og sumar hlær í næturblæ,
og vorið milda vekur fræ,
og vetur frýs.
Því æ í manna minnum er
sú mæra stund er varstu hér,
og okkur fannst sem værum vér
í Paradís.
Myndir af Kristjáni voru víða á bæjum um landið, en Íslendingar virðast samt hafa misskilið hann, því hann var enginn sérstakur öðlingur, þótti hrokafullur og afturhaldssamur aðalsmaður, hafði verið sóttur suður í Þýskaland þegar danska Aldinborgarættin var að líða undir lok og svokallaðir Lukkuborgarar tóku við. Það mun frekar vera dönskum stjórnmálamönnum að þakka en kónginum að Íslendingar fengu fyrstu stjórnarskrána. En barnalán Kristjáns var mikið og hans er nú helst minnst fyrir að vera tengdafaðir Evrópu. Hann er langalagafi Elísabetar Bretadrottningar og var afi Nikulásar 2, Rússakeisara, þess er bolsévíkar drápu.
En Íslendingar voru svo hrifnir af Kristjáni að þeir vildu reisa af honum styttu. Betri borgarar, embættismenn og kaupmenn beittu sér mjög fyrir því og var hafin fjársöfnun. Ekki voru þó allir jafn áhugasamir, í sínum mikla bókaflokki um Ísland á tíma sjálfstæðisbaráttunnar segir Þorsteinn Thorarensen:
“Frá Vestur-Íslendingi barst bréf þar sem hann sagði: – Ekki verður til mikils að biðja okkur að leggja í konungsmyndarsjóðinn. Okkur þykir það engin þjóðarþörf. En á fáum dögum var safnað í Winnipeg handa berklaheilsuhælinu heima 140 dollurum – rúmum 500 krónum.”