„Mér finnst þetta einkenna sjálfstraust formannsins. Formaðurinn er greinilega þeirrar skoðunar að staða hans sé sterk,“ segir Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra og áhrifamaður innan Samfylkingarinnar um árabil, um ráðherraskipan Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Hún er í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld klukkan 21:00 ásamt Borgari Þór Einarsyni sem er nýorðinn aðstoðarmaður núverandi utanríkisráðherra.
Sérstaklega þótti Kristrúnu djarft hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að velja ekki þingmenn að sunnan á ráðherrastóla með tilliti til þess að Suðurkjördæmi hefði verið sterkasta vígi sjallanna síðan eftir hrun. Sagt er frá viðtalinu á vef Hringbrautar en þar kemur meðal annars fram:
Borgar segir kapal Bjarna um ráðherrasamsetningu flokksins „djarfa“ þar sem farið er neðar á framboðslista en nokkru sinni fyrr til að sækja ráðherra Aðspurður af hverju Bjarni hafi ekki sótt konur, líkt og vantaði í ráðherrahópinn, utan þings enda fordæmi fyrir því hjá honum, segir Borgar Þór að þingflokkurinn hafi einfaldlega verið samstíga og sammála um að gera það ekki. Kristrún tekur undir að Bjarni sé djarfur og telur þá leið sem Bjarni fór bera vott um „mikið sjálfstraust“ hans.
Naumur meirihluti nýrrar stjórnar, eða eins manns, er ekki ávísun á veika stjórn, segir Borgar Þór og tekur dæmi um stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar frá 2007 sem hafi haft mjög mikinn meirihluta en ekki haft samsvarandi styrk. Kristrún sagði þá um möguleikann hjá Bjartri framtíð, Óttarri og Björt Ólafs að segja sig frá þingmennsku vegna ráðherrastarfsins, vera skynsamlega. „Það eru engar reglur brotnar með því“, segir hún. Borgar Þór segist vera hlynntari því að almennari reglu gildi um slíkt en við þetta sé ekkert að athuga.
Í sama þætti er tekið viðtal við Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, sem segir að þau í Viðreisn hafi gert meiri væntingar til stjórnmálasáttmálans í upphafi.
„Ég hefði viljað að við gætum orðað hluti með afdráttarlausari hætti heldur en er gert,“ segir Benedikt um stjórnarsáttmálann. „En hinsvegar verður maður að sætta sig við það, þegar maður er að gera málamiðlanir, þegar maður er að fara í samstarf við flokka sem hafa aðra stefnu að þá er kannski mikilvægast tvennt. Annarsvegar að opna á breytingar og hinsvegar það hver fer með forræði málaflokksins í framtíðinni.“
Börkur Gunnarsson tók saman.