fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
Eyjan

Jón Sigurðsson: Evrópusambandið ekki á dagskrá

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 17. apríl 2017 19:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Sigurðsson skrifar:

Aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá og verður ekki um fyrirsjáanlega framtíð. Enginn getur fullyrt slíkt, en menn hugsa trúlega til a.m.k. 5-8 ára. En Evrópumál, samskipti Íslendinga við aðrar Evrópuþjóðir, eru auðvitað og verða áfram eitt helsta svið þjóðmála.

Forysta Evrópusambandsins hefur lýst yfir því að ekki sé stefnt að inngöngu fleiri ríkja á næstu árum. Undirbúningur að ferli inngöngusamninga getur þá ekki hafist fyrr en eftir a.m.k. 4-5 ár, jafnvel þótt ríki æski inngöngu fyrr. Gera verður ráð fyrir að inngöngusamningar, þjóðaratkvæðagreiðslur, undirbúningur og ákvarðanir taki varla styttra en 5 ár. Þá er hér fullur áratugur í augsýn, fyrir þá sem leiða huga að þessu.

Líklega telja flestir íslenskir Evrópusinnar skynsamlegt eða nauðsynlegt að bíða niðurstöðu um úrsögn Stóra-Bretlands, áður en aftur verði aðhafst af hálfu Íslendinga. Svo mikilvæg er staða Breta talin fyrir okkur. Málefnalega ætti þetta aðeins að verða bið um 3-5 ár eða svo. Bretar geta vel bjargað sér sjálfir, og Evrópusambandið líka. En sundurlyndi Breta, streitur og undirbúningsleysi virðast munu lengja þennan tíma verulega, jafnvel tvöfalda hann.

Muna eftir að nefna skrattann líka

Fleira kemur til álita í þessu. Miðstöðvar Evrópusambandsins fara aðeins með tæp 2% af hagkerfum aðildarþjóðanna. Lengi vel var sæmilegur friður um framþróun Evrópusambandsins. Flestallir voru sáttir á að forystumenn stærstu þjóðanna, ásamt embættismönnum, kæmu fram fyrir hönd heildarinnar. Nú hefur þetta alveg snúist við. Nú er þetta ,,lokuð foréttindastétt valdamanna og skriffinna sem vinnur gegn almenningi“. Öll óánægja beinist allt í einu að forystu Evrópusambandsins, án nokkurs tillits til málsatvika. Og víða höfða hugsjónasnauðir framagosar til heilbrigðrar þjóðrækni almennings og verður ágengt.

Nú eru vandamál Grikkja, svo grátleg sem þau eru, sögð að öllu leyti Evrópusambandinu að kenna. Spilltir stjórnmálamenn, bankamenn og auðstétt Grikklands glotta. Nú gleyma menn Berlusconi þegar rætt er um vanda Ítala. Kanslara Þýskalands er kennt um flóttamennina og talið ósanngjarnt að aðildarríkin hjálpist að. Nú er sligandi ofurbákn Frakklands alls ekki sagt heimasmíðað. Nú er enginn maður með mönnum í Ungverjalandi eða Póllandi nema hann nefni skrattann alltaf þegar Evrópusambandsins er minnst. Þetta er nefnilega prýðileg grýla fyrir vandræði sem menn valda sjálfir heima fyrir.

Evran er ekki orðin tvítug og hefur staðist mikinn öldugang. Hún er enn í mótun. Bandaríkjadalur þurfti meira en öld til að mótast. En nú er fjöldamargt orðið að stórsyndum evrunnar. Sumir halda því fram, að því er virðist í alvöru, að gengisfellingar séu ,,blessun“. Meira að segja margir Íslendingar eru farnir að trúa þessu. Hér er þá komið nýtt skálkaskjól og evrunni kennt um flest það sem afvega fer.

Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra, seðlabankastjóri, formaður Framsóknarflokksins og rektor. Mynd: DV.

Hugsanlega ganga nokkur ríki úr Evrópusambandinu á næstu árum. Styrkur sambandsins og vægi miðast aftur á móti mest við Þjóðverja, Frakka og Niðurlendinga, og jafnvel einnig Ítala, Íra og Spánverja. Úrsögn sumra ríkja mun líklega helst hreinsa loftið. Margt bendir til að útþensla Evrópusambandsins hafi gengið of hratt og miklu hægari þróun sé heppilegari.

Hagsmunir, sérstaða og réttur

Það er margstaðfest á löngum tíma að sterkur meirihluti Íslendinga er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Menn sjá Evrópusambandið sem ólýðræðislegt skriffinnsku- og valdabákn og tilræði við þjóðlegt fullveldi. Það er ráðgáta að ríkisstjórn Íslands efndi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu til að drepa málið. Fullyrða má að rækileg umskipti þarf til að afstaða meirihluta þjóðarinnar breytist.

Áratugum saman var unnið að auknum viðskiptum þjóða og samþættingu atvinnulífs, markaða og þróunar. Nú telja margir þetta samsæri auðvalds og forráðahópa. Nú sjá menn í þessu byggðaröskun og atvinnuleysi, yfirgang auðhringa, lokuð valdakerfi og ofsagróða ofur-auðmanna. Og víst er hæfa í þessu. En þó hefur almenningur líka fengið að njóta mikilla ávaxta alþjóðaþróunarinnar.

Afstaða Íslendinga til samskipta og viðskipta við aðra greinist þannig að annars vegar  er vernd + öryggi + aðhald og hins vegar breyting + áhætta + opnun. Þessi öxull gengur í ólíkum hlutföllum gegnum alla íslenska stjórnmálaflokka og helstu hagsmunasamtök. Flestir hérlendis fylgja þessum öxli þegar þeir taka afstöðu til Evrópusambandsins.

Hagsmunum, sérstöðu og rétti Íslendinga er best lýst í samþykkt flokksþings Framsóknarmanna 2009 um aðildarviðræður. Enda þótt þessi samþykkt hafi verið gerð við aðstæður sem nú eru að baki, er mikilvægt að sem flestir kynni sér efnisatriði hennar. Þau eru í fullu gildi fyrir þjóðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bryndís sagði málþóf séríslenskt fyrirbæri og taldi rétt að beita 71. grein – Undirbýr nú 32. ræðu sína um veiðigjaldið

Bryndís sagði málþóf séríslenskt fyrirbæri og taldi rétt að beita 71. grein – Undirbýr nú 32. ræðu sína um veiðigjaldið
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sara tekst á við nýtt verkefni -„Það er óhætt að segja að ég sé glöð og hissa“ 

Sara tekst á við nýtt verkefni -„Það er óhætt að segja að ég sé glöð og hissa“ 
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Uppáhalds afsökunin okkar

Nína Richter skrifar: Uppáhalds afsökunin okkar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun