fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
Eyjan

Fyrst voru skipin rauð og þeir máluðu þau blá

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 17. apríl 2017 17:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfuðstöðvar HB Granda á Akranesi. Þetta hús var á sínum tíma reist af Haraldi Böðvarssyni & Co þegar Akranes var stórveldi sem útvegsbær. Eins og aðrar byggingar fyrirtækisins var rauðmálað um áratugaskeið og húsin settu svip á bæinn. Í dag eru þau grá á lit.

Húsin voru líka rauð og þeir máluðu þau grá. Svona hefur þetta gengið allar götur síðan flutningafyrirtækið Eimskip keypti meirihlutann í HB hf. árið 2003. Þá misstu Akurnesingar yfirráðin á nær öllum nýtingarrétt sínum á fiskimiðunum við Ísland. Eitt glæsilegasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem réð yfir ríkulegum aflaheimildum í öllum nytjastofnun við Ísland var komið undir yfirráð viðskiptamanna sem höfðu engar taugar til samfélagsins á Akranesi. Þeir þekktu þar fáa, vissu ekkert um stritið og blóðfórnirnar sem lágu á bak við það að koma á fót og festa sjávarútveg í sessi í þessum bæ sem stundum hefur var kallaður Skipaskagi. Nafnið kom til vegna þess að þar voru svo mörg skip. En nú ei meir.

Það var nefnilega komið kerfi smíðað af mönnum. Þetta kerfi bjó yfir reglum sem varð að hlýða. Og vei þeim sem vogaði sér að gagnrýna kerfið. Ég minnist þess að hafa haft uppi varnaðarorð opinberlega um þetta í fjölmiðlum þegar HB var selt haustið 2003. Ég sagði að fyrst yfirráðin yfir nýtingarréttinum væru farin þá yrði stutt í að aflaheimildirnar flyttu á brott og með þeim atvinnutækin og störfin og tekjurnar. Svo það sé sagt hreint út þá var mér svo gott sem sagt að halda kjafti og skammast mín. „Úrtölumaður með hrakspár.“

En fljótlega urðu miklar breytingar. Togarar hættu að landa í Akraneshöfn. Síld var ekki lengur landað þar, loðnu yfirleitt aðeins í lok vertíðar þegar hún var komin inn í Faxaflóa. Kolmunna einungis nokkrum sinnum ári. Landvinnslan varð bara skuggi fortíðar. Og áfram má telja.

Síðan eru liðin nær 14 ár. Í dag spyr maður sig hvað fólk hafi eiginlega verið að hugsa um og upp úr síðustu aldamótum? Voru vítin ekki til að varast þau? Hvað gerðist með Vestfirði? Eða Sandgerði? Af hverju vörðu Skagamenn ekki yfirráð sín yfir eigin nýtingarétt á fiskimiðunum með kjafti og klóm og þannig möguleikana til að stýra sjálfir framtíð eigin samfélags íbúum til heilla? Um leið og heimamenn misstu umráðaréttinn yfir kvótanum þá fór aðgöngumiði þeirra að sjávarauðlindinni. Þessi gríðarlega dýrmæta og endurnýjanlega auðlind verður nýtt löngu eftir að búið verður að loka öllum sementsverksmiðjum og málmbræðslum í heimi því hún gefur af sér holl matvæli sem mannkyn mun ávallt þarfnast.

En af því að kerfið er þannig að menn verða að eiga aflaheimildir til að fá að veiða þá eru þeim bjargir bannaðar. Þetta vissu Vopnfirðingar þegar Vopnafjarðarhreppur keypti ásamt heimamönnum Tanga á Vopnafirði af Eskju hf. á Eskifirði árið 2003. Tveimur árum síðar sameinuðust þeir HB Granda. Þeirra menn fengu lykilhlutverk þar og halda þeim enn. Og nú vinna þeir allan þann uppsjávarkvóta sem tilheyrði Akranesi fyrrum og munu sömuleiðis sjá um stóran hluta bolfiskkvótans. Vopnfirðingar höfðu kjark til að verja sinn hlut og þeirra er framtíðin.

Eftir sitja Skagamenn með ónýt spil á hendi. Einn glæsilegasti útvegsbær Íslands með ein ríkustu fiskimið landsins rétt fyrir utan er ei meir. Nafnið Skipaskagi hljómar eins og hæðnisorð.

Magnús Þór Hafsteinsson, ritstjóri.

Birtist sem leiðari í Vesturlandi. Smellið hér fyrir neðan til að lesa blaðið á netinu:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Julian McMahon látinn

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bryndís sagði málþóf séríslenskt fyrirbæri og taldi rétt að beita 71. grein – Undirbýr nú 32. ræðu sína um veiðigjaldið

Bryndís sagði málþóf séríslenskt fyrirbæri og taldi rétt að beita 71. grein – Undirbýr nú 32. ræðu sína um veiðigjaldið
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sara tekst á við nýtt verkefni -„Það er óhætt að segja að ég sé glöð og hissa“ 

Sara tekst á við nýtt verkefni -„Það er óhætt að segja að ég sé glöð og hissa“ 
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“

Ný vonarstjarna Demókrata gæti komist í mikilvægt embætti – Trumpistar kalla hann „hryðjuverkamann“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni

Veiðigjaldafrumvarpið: Harðlínumennirnir hafa undirtökin innan SFS – málflutningurinn heldur ekki vatni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Uppáhalds afsökunin okkar

Nína Richter skrifar: Uppáhalds afsökunin okkar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun