„Enn hefur ekki verið upplýst hvers vegna ríkisstjórnin sprakk. Ekki þannig að skiljanlegt sé. En vitað er að hún var sprengd með tilkynningu sem barst frá heimili Óttars Proppé, leiðtoga Bjartrar framtíðar, skömmu eftir miðnætti (!) aðfaranótt föstudags. Engin skýring hefur verið gefin á hvers vegna mátti ekki taka þessa ákvörðun í björtu. Atburðarásin staðfestir hins vegar hversu óeðlilegt er að smáflokkar með enga stjórnskipulega reynslu, gersneyddir raunverulegu baklandi, fái of mikið ríkisvald í hendur. Óttar leiðtogi hefur lýst hvernig fólkið „hafi setið í hring“ og hver tjáð sig í eina til tvær mínútur.“
Þetta segir í leiðara Morgunblaðsins í dag, sem ljóst er að skrifaður er af Davíð Oddssyni, ritstjóra blaðsins og fv. forsætisráðherra.
Hann segir það undirstrika hversu súrrealísk þessi ákvörðun var að Benedikt Jóhannesson, sem bjó yfir sömu upplýsingum og Óttar, hafi sagt spurður um tíðindin að hann hefði ekki talið fréttir dagsins fela í sér trúnaðarbrest.
„Hitt er annað mál að ekki löngu síðar var eitthvert „ráðgjafaráð“ búið að koma því inn hjá Benedikt að þetta væri ekki aðeins trúnaðarbrestur heldur ofsalegur trúnaðarbrestur. Þessi stofnun, sem fáir höfðu heyrt nefnda, virðist ekki aðeins hafa verið stofnuð til skrafs og ráðagerða heldur sem eins konar „pólitbúru“ hjá Viðreisn,“ segir í leiðaranum.
„Hún kom svo næst við sögu eftir að forsætisráðherra hafði beðið forseta um lausn, eins og næstum sjálfgefið var. Það eru til fordæmi frá ekki minni manni en Ólafi Jóhannessyni, helsta fræðimanninum um stjórnlagamálefni, sem vék ekki þótt fulltrúar pólitísks smælkis tættust frá honum. Hann vísaði á þær leikreglur sem giltu um það hvernig koma mætti frá ríkisstjórn sem sæti í óþökk Alþingis.
Annar stjórnlagafræðingur, Gunnar Thoroddsen, beitti sér fyrir setningu fjölda bráðabirgðalaga, þótt óvíst væri um að ríkisstjórnin hefði enn meirihluta á Alþingi. En þetta var allt áður en óguðlegir álfar settust saman í hring, til að fella ríkisstjórn. Hingað til hafa stórmál ein ráðið slíkum úrslitum. Dæmi um það er þegar Hermann forsætisráðherra taldi að landið væri að ramba fram af brún hengiflugs haustið 1958.
Eftir að forseti hafði meðtekið og samþykkt lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar óskaði hann eftir því að ríkisstjórnin sæti áfram uns önnur hefði verið mynduð. Fram að þessu hafa fráfarandi forsætisráðherrar samþykkt slíka beiðni forseta á staðnum án þess að bera það undir aðra og breytt ríkisstjórninni þar með í starfsstjórn. En nú þurfti þjóðin til viðbótar við annan skrípaleik að horfa á álfana dansa. Snillingarnir í hinni skínandi björtu framtíð og þeir sem reistu sig við í fyrra tóku að fimbulfamba opinberlega um það hvort þeir ættu virkilega að samþykkja starfsstjórn. Var augljóst að enginn á þeim bæ hefði lesið Gagn og gaman og Litlu gulu hænu íslenskrar stjórnskipunarhefðar og stæðu á gati.
Nú þykir einsýnt í þessum gerviógöngum að breyta lögum svo meðmælendur, eins og Ríkisútvarpið orðaði svo smekklega, tækju ekki ábyrgð á barnaníðingum. Þetta er það besta sem fyrir „brotamenn“ er gert því enginn maður fæst til leggja þeim gott til eftir þetta fár. En ekki verður séð að í lögum sé minnst á þessa meðmælendur. Þar er hins vegar mælt fyrir um að sannreyna þurfi eins og fært sé að brotamaður hafi eftir afplánun og biðtíma bætt ráð sitt. Ráðuneytið hefur ákveðið að þetta skuli gert með því að fá valinkunna menn „t.d. vinnuveitanda“ eins og segir á heimasíðu þess, til að gefa álit. Það getur að sjálfsögðu enginn „ábyrgst“ eitt eða neitt í slíkum efnum. Vinnuveitandi, sem ráðuneytið bendir sérstaklega á, getur vottað að umræddur aðili sinni vinnu af alúð en ekkert sagt um það hvað starfsmaðurinn aðhefst að öðru leyti. Vegna þessara augljósu erfiðleika verða hin formlegu skilyrði að duga um afplánun og biðtíma þar sem ekkert hefur komið fram um áframhaldandi brotaháttsemi. Þeir sömu og fordæma sífellt „geðþóttaákvarðanir“ ráðherra (sem er raunar eitt ruglið enn) tala hins vegar um „færiband“ ef jafnræðis er gætt með fyrirliggjandi áþreifanlegum formreglum. Margur hefur seilst langt til að koma höggi á forsætisráðherrann, ekki síst hið siðhalta Ríkisútvarp (Faðir forsætisráðherra ábyrgist barnaníðing).
Ekki hefur þó verið bent á neitt dæmi um það að skipt hafi máli í áratuga meðferð mála af þessu tagi hver það er sem leggur gott orð til umsækjanda. Meðmælandinn getur aðeins nefnt það sem hann veit jákvætt um hann. Hann getur ekki ábyrgst eitt eða neitt og aldrei tekið ábyrgð á þeim glæp sem framinn var. Þetta undirstrikaði prófessorinn í stjórnskipunarrétti nýlega, og ætti það raunar að liggja í augum uppi,“ segir í leiðara Morgunblaðsins.