Bjarni Benediktsson ætlar að bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku í Sjálfstæðisflokknum, haft var eftir Bjarna í kvöldfréttum að honum hugnaðist best þingkosningar í nóvember en landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram 3. til 5. nóvember næstkomandi.
Bjarni, sem gengt hefur embætti formanns Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2009, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í kjölfar yfirlýsingar hans í Valhöll að hann hygðist bjóða sig fram:
Já, það hafði aldrei hvarflað að mér í öllu þessu ferli annað en að halda áfram því maður er einfaldlega í miðju verki,
sagði Bjarni. Hann sagði á blaðamannafundinum í dag að koma þyrfti festu á stjórnmálin. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem nefndur hefur verið sem hugsanlegur arftaki Bjarna á formannstóli, tók undir með Bjarna, sagði hann flokkinn standa upp úr þegar kæmi að nauðsynlegum stöðugleika í stjórnmálum og að flokkurinn gengi óhræddur til kosninga:
Við göngum óhrædd til kosninga og leggjum okkar störf í dóm kjósenda og gerum það stolt.