Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson formaður Ungliðahreyfingar Viðreisnar býður sig fram til áframhaldandi formennsku á aðalfundi hreyfingarinnar, föstudaginn 22. september. Fundurinn fer fram í húsnæði flokksins í Ármúla.
Í tilkynningu sem Dagbjartur sendi fjölmiðlum í dag segir hann að heimili hans verði opið þeim sem vilji flytja lögheimili sitt fyrir formannskjörið:
Í ljósi nýliðinna atburða vil ég nýta tækfærið og bjóða heimili mitt opið fyrir þá sem vilja flytja lögheimili sitt fyrir kosningarnar. Allir meðlimir ungliðahreyfingarinnar njóta atkvæðisréttar á aðalfundinum, óháð búsetu, en boðið stendur engu að síður,
segir Dagbjartur. Hann segir jafnframt að hann myndi bjóða upp á flug og rútuferðir á kjörstað, en hann hafi hins vegar ekki efni á því:
Ég býð hvorki rútuferðir né flug á kjörstað, aðallega af fjárhagslegum ástæðum. Ég myndi pottþétt bjóða upp á hvort tveggja ef ég hefði efni á því. Öllum er þó frjálst að nýta sér þjónustu annarra aðila, til dæmis til að skoða gullna hringinn.