Ný stjórn þingflokks Pírata var kjörin á þingflokksfundi í gær. Birgitta Jónsdóttir var kosin þingflokksformaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er varaformaður þingflokks og Jón Þór Ólafsson er ritari þingflokks.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Pírötum að stjórnarkjörið séhluti af endurskipulagningu innan þingflokksins sem hefur staðið yfir í sumar og nú sé verkaskipting og valddreifing jafnari en áður meðal stjórnarliða þingflokks. Greint var frá því um miðjan maí síðastliðinn að Ásta Guðrún Helgadóttir hafi hætt sem þingflokksformaður í kjölfar ágreinings. Þessi verkaskipan sé aðeins einn angi af vinnu þingflokks við að skerpa á leiðum til að hrinda í framkvæmd helstu stefnumálum Pírata.
Píratar hyggjast setja nýja stjórnarskrá á oddinn sem aldrei fyrr, auk þess sem Píratar leggja áherslu á gegnsæi sem sé forsenda þess að almenningur geti tekið þátt á upplýstan hátt í lýðræðissamfélagi. Til að fyrirbyggja spillingu skipti gagnsæi máli því þá er ábyrgð skýr og upplýsingar aðgengilegar. Píratar vilja valdefla almenning með betra aðgengi að upplýsingum á mannamáli. Aðeins þannig sé hægt að veita ráðandi öflum nauðsynlegt og heilbrigt aðhald. Þannig er hægt að láta þá sem bera ábyrgð axla hana.