Í fjárlögum ríkisstjórninarinnar munu heilbrigðis- og velferðarútgjöld hækka um 4,6% umfram launa- og verðlagsþróun. Framlög til byggingar nýs Landspítala verða 2,8 milljarða króna og hækka um 1,5 milljarða króna frá fjármálaáætlun, er gert ráð fyrir að bygging hefjist á næsta ári. Einnig á að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað, t.d. með fjölgun sálfræðinga. Barna- og unglingageðdeild Landspítala verður styrkt sérstaklega og sálfræðingum á heilsugæslu, geðheilsuteymum og meðferðarúrræðum við geðvanda fjölgað, áætlað er að auka framlög til geðheilbrigðisþjónustu í áföngum til ársins 2022. Framlög til reksturs og þjónustu Landspítalans aukast um 560 milljónir í fjárlögunum sem og 80 milljónir til Sjúkrahússins á Akureyri. Tímabundið framlag sem átti að mæta útskriftarvanda Landspítalans fellur niður.
Alls verður 44 milljarða króna afgangur á fjárlögum ársins 2018 sem er 4 milljarða króna betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Frumtekjur eru 822 milljarðar ásamt 12 milljörðum í vaxtatekjur. Frumgjöld nema svo 717 milljörðum ásamt 73 milljörðum í vaxtagjöld. Skuldir ríkissjóðs lækkuðu um 233 milljarða í fyrra, á næsta ári eiga skuldir að lækka um 36 milljarða króna og verða því heildarskuldir ríkissjóðs 859 milljarðar í lok næsta árs.
Tekjutrygging hækkar í fjörlögunum, fólk sem býr eitt og þiggur örorkulífeyri eða ellilífeyri mun fá að minnsta kosti 300 í stað 280 þúsunda. Stofnstyrkir til byggingar almennra íbúða verða 3 milljarðar, sem er hækkun um 100% frá gildandi fjárlögum. Stuðningur við fyrstu íbúðakaup hefur verið festur í sessi. Hæstu greiðslur í fæðingarorlofi hækka úr 500 í 520 þúsund krónur, en stefnt er að því að hækka greiðslurnar í 600 þúsund á næstu árum. Framlög vegna móttöku flóttamanna verða nálega þrefölduð. Stuðningskerfi til að auka atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu verður styrkt frekar.