Boðað hefur verið til tvennra mótmæla í Reykjavík í dag. Jæja-hópurinn hefur boðað til mótmæla á Austurvelli til að mótmæla ríkisstjórninni við setningu Alþingis kl.13:30. Svo hafa samtökin Solaris boðað til mótmælastöðu fyrir utan dómsmálaráðuneytið, mótmælastaðan hefst í dag og verður hún út vikuna. Síðustu helgi stóðu samtökin No Borders Iceland fyrir samstöðufundi á Austurvelli.
Mótmæli Jæja-hópsins má rekja til pistils Illuga Jökulssonar rithöfundar á Stundinni þar sem hann segir að fyrirhugaður brottflutningur feðginanna Abrahim og Haniye frá landinu á fimmtudag sé blaut tuska ríkisstjórnarinnar framan í alla sem höfðu vonað að þeim yrði sýnd mannúð. Búast má við að mótmælin verði nokkuð fámenn, en 51 hefur meldað sig á samfélagsmiðlum.
Mótmælastaða Solaris er einnig til að mótmæla fyrirhuguðum brottflutningi Abrahim og Haniye, sem og væntanlegum brottflutningi Mary og foreldra hennar, Joy og Sunday. Vilja samtökin senda Sigríði Andersen dómsmálaráðherra skýr skilaboð um að þessi stjórnsýsla sé ólíðandi og ákvörðunin um að vísa þeim úr landi frekar en að veita þeim hæli sé ekki gert í þeirra nafni.