ASÍ segir að barnabótakerfið hér á landi hafi fremur einkenni fátæktarstyrks á meðan barnabætur greiðist með öllum börnum á hinum Norðurlöndunum. Gagnrýnir ASÍ ríkisstjórnina fyrir að vilja ganga enn lengra í þeim efnum og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra fyrir að draga úr greiðslum barnabóta á sama tíma og hann lýsi yfir áhyggjum af lækkandi fæðingartíðni.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá ASÍ að markmið barnabóta á hinum Norðurlöndunum sé að jafna fjárhagsstöðu fjölskyldna með og án barna og á milli æviskeiða, því sé greidd sama fjárhæð með hverju barni óháð tekjum foreldranna.
Rannsókn hagdeildar ASÍ á þróun skattbyrði launafólks 1998-2016 sýni að skattbyrði hafi aukist umtalsvert, m.a. vegna lækkandi barnabóta sem rekja má til nokkurra þátta. Bótafjárhæðir hafa hvorki haldið í við þróun launa né verðlags, skerðingarhlutföll vegna tekna hafa aukist allra síðustu ár og frá og með tekjuárinu 2010 voru allar barnabætur tekjutengdar, líka fyrir 7 ára og yngri. Barnabætur taka mið af bæði fjölda barna og hjúskaparstöðu foreldra. Þannig aukast greiðslur með auknum fjölda barna ásamt því að einstæðir foreldrar eiga rétt á hærri barnabótum en hjón.