Af einstaka starfsstéttum eru starfsmenn sem vinna við ræstingar með lægstu dagvinnulaunin, eða 328 þúsund krónur á mánuði að meðaltali fyrir fullt starf en leiðbeinendur á leikskólum eru með lægstu heildarlaunin að meðaltali fyrir fullt starf, eða 354 þúsund krónur.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum umfangsmikillar könnunar Gallup sem náði til félagsmanna Eflingar og Flóabandalagsins. Könnunin leiðir margt athyglisvert í ljós.
Í tilkynningu sem Efling sendi frá sér vegna könnunarinnar kemur fram að um þriðjungur félagsmanna Eflingar búi í leiguhúsnæði og greiðir yfir tvö þúsund krónur á mánuði að meðaltali fyrir hvern fermetra.
Þegar laun eru annars vegar kemur í ljós að leiðbeinendur á leikskólum séu jafnframt lang ósáttastir með laun sín þar sem yfir 8 af hverjum 10 eru mjög eða frekar ósáttir á meðan rétt yfir 4 af hverjum 10 félagsmönnum í Flóanum alls segjast vera mjög eða frekar ósáttir með laun sín. Skrifstofufólk, stjórnendur og sérfræðingar eru með hæstu heildarlaunin, eða 579.000 kr. á mánuði að meðaltali fyrir fullt starf. Þar á eftir koma byggingastarfsmenn með 575.000 kr. á mánuði að meðaltali.
Þá leiðir könnunin í ljós að heildarlaun karla séu að meðaltali 126 þúsund krónum hærri en heildarlaun kvenna fyrir fullt starf. Heildarlaun karla í fullu starfi eru að meðaltali 531.000 kr. á mánuði og 405.000 kr. hjá konum. Hins vegar er meðaltal heildarmánaðarlauna allra félagsmanna í Flóanum 473.000 kr. á mánuði og miðgildi heildarmánaðarlauna 445.000 kr.
Þegar spurt var hver væru sanngjörn laun fyrir vinnu viðkomandi, þá töldu karlar að þau þyrftu að vera 64 þúsund krónum hærri og konur 82 þúsund krónum hærri að meðaltali á mánuði en nú er. Munurinn á dagvinnulaunum karla og kvenna er mun minni en á heildarlaunum, eða 44.000 krónur á mánuði. Karlar eru að meðaltali með 390.000 kr. á mánuði í dagvinnulaun á meðan konur eru að meðaltali með 346.000 kr. í dagvinnulaun fyrir fullt starf.
„Vert er að vekja athygli á því að fjölmennir hópar hefðbundinna kvennastarfa eiga þess ekki kost að vinna fullt starf. Þannig er einungis 20% þeirra sem starfa við umönnun sem segjast vera í fullu starfi en þar er jafnframt meðalfjöldi vinnustunda lægstur eða 35,6 klst. á viku en meðaltal fjölda vinnustunda hjá öllum svarendum er 42,1 klst. Meðaltal heildarlauna fyrir fullt starf í umönnun er 450.000 kr. en sú tala endurspeglar í raun lítinn hluta þess hóps sem starfar í umönnun þar sem flestir eru í hlutastörfum og vinna í vaktavinnu,“ segir í tilkynningu Eflingar.