fbpx
Mánudagur 18.ágúst 2025
Eyjan

Samsærið: Hryðjuverk í Stokkhólmi – Íslensk þingkona er meðal fallinna

Ari Brynjólfsson
Sunnudaginn 26. nóvember 2017 18:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókarkafli úr Samsærinu: Hryðjuverk í Stokkhólmi – Íslensk þingkona er meðal fallinna

Er það tilviljun eða teygja þræðir voðaverksins sig til Íslands? Er þjóðernisfasisminn kominn að okkar ströndum? Huldir þræðir leyndarmála og lyga liggja víða.

Eiríkur Bergmann stígur hér fram með æsispennandi reyfara sem enginn mun geta lagt frá sér fyrr en á síðustu blaðsíðu.

Um leið er efni Samsærisins sannarlega á döfinni þessa dagana.

 

  1. kafli

 

Rauður ók út úr skemmunni. Þeir komu á eftir honum í einfaldri röð. Fyrstur sá með gula hjálminn, svo sá græni og loks sá blái. Sjálfur bar hann blóðrauðan mótorhjólahjálm á dökku höfði. Halarófan hélt í átt að borginni, yfir brúna og út hólmann áður en leiðir skildi.

„Gangi ykkur vel,“ sagði Rauður í hljóðnemann og fylgdist með grænum, gulum og bláum hjálmum hverfa hver sína leið. „Guð veri með ykkur!“ bætti hann við þegar hann sjálfur hélt í fjórðu áttina. Þeir þekktu ekki raunveruleg nöfn hver annars og færi allt vel myndu þeir ekki hittast á ný.

Héðan af yrði vart aftur snúið, hugsaði hann með sér er hann ók af þrautþjálfuðu öryggi hlykkjóttan krákustíginn og inn á torgið. Gengi allt upp átti hann í vændum skjótan frama. Rauður dró úr hraðanum og fór hægt áleiðis að hlaðinni steinbyggingu sem gnæfði groddaleg yfir umhverfið. Aðgerðin var þaulæfð og hann nam hljóðlega staðar í hliðargötu skammt frá einum vegartálmanum sem komið hafði verið upp við samgönguleiðir að byggingunni.

Tuttugu sekúndur voru í núllstund. Hann smellti upp andlitshlífinni á hjálminum og tók af sér hanskana. Dró svo fram apparatið úr brjóstvasanum, kveikti á skjánum og gekk úr skugga um að græjan tengdist móttökubúnaðinum inni í húsinu líkt og hún var stillt á og svo oft hafði verið æft.

„Allir klárir?“ spurði hann þegar allt var til reiðu hans megin.

„Já, Gulur í stöðu,“ heyrði hann umsvifalaust í heyrnartólinu í hjálminum.

„Blár líka klár,“ gall nú einnig við andstuttum rómi.

En svo heyrðist ekki meir. Um stund merkti hann ekki annað en æsilegan æðasláttinn í höfðinu.

„Grænn, hvað með þig?“ spurði Rauður þegar nokkrar sekúndur höfðu hljóðlaust liðið fram yfir ætlaða núllstund.

Enn barst ekkert svar. Hver fjandinn hefur gerst? Rauður dró andann, leit til himins og tók svo einbeitta ákvörðun.

„Við getum ekki beðið,“ sagði hann ákveðið. „Það er go, skiljið þið það, það er go. Einn, tveir og núna!“

 

  1. kafli

 

Ævar fann að þetta var hans stund. Kannski fulldramatískt að kalla það óskastund. En samt. Allt hafði raðast rétt saman, tímasetningar hárnákvæmar og meira að segja hvassleita stúlkan á þriðja bekk hafði dregið svart hárið frá fölu andlitinu og virtist áhugasöm. Hann var í miðjum fyrirlestri um rætur ítalska fasistaflokksins. Ennþá æði óreyndur og stundum svo óstyrkur að tennurnar áttu það til að glamra uppi í honum. Mentor hans í fræðunum, prófessor Mette Krarup við Kaupmannahafnarháskóla, hafði kennt honum að anda í kviðinn þegar kvíðinn sótti að í kennslustofunni. Og núna tókst honum bara nokkuð vel upp. Fannst honum allavega. Náði ágætri stjórn á taugunum sem áður titruðu eins og falskir gítarstrengir við svona aðstæður. Var satt að segja farið að finnast hann hálfpartinn ósigrandi. Svo þetta var þá tilfinningin sem samkennararnir gumuðu af á kennarastofunni.

Hann lýsti því hvernig þjóðernisstefnan hefði sprottið fram á miðri átjándu öld í aðdraganda frönsku stjórnarbyltingarinnar og allar götur síðan verið miðlæg í hugmyndakerfi mannsins. Hefði í sinni einföldustu mynd falið í sér þá kröfu að afmarkaðar þjóðir mynduðu um sig fullvalda ríki. Þjóðernisstefnan breiddist svo út um Evrópu samhliða lýðræðiskröfunni og brátt tók þjóðríkið við af einveldi konunga sem ríkjandi stjórnarform.

„Ertu þá að segja að lýðræði og þjóðernishyggja haldist í hendur?“ spurði hvassleita stúlkan á þriðja bekk.

Ævari fannst hann greina einhvern slavneskan hreim. Eins fannst honum beinskeyttur andlitssvipurinn heldur framandi. – Líkast til af rússneskum ættum, skjöplaðist honum ekki þeim mun hrapallegar.

„Ég hélt það væru andstæður,“ bætti hún við.

Ævar fann hnútinn í maganum harðna. Hann beit á jaxlinn, brosti sínu kankvísa brosi og bægði nokkuð áreynslulaust frá sér uggnum sem fór að honum.

„Já – nei,“ sagði hann á meðan hann barðist við að muna nafnið hennar. „Lýðræðiskrafan var vissulega órofa hluti þjóðernisstefnunnar í upphafi en …“

„Var Hitler ekki mesti þjóðernissinninn? Ekki var hann nú lýðræðissinni,“ sagði bjarthærður piltur og greip kinnroðalaust fram í fyrir fyrirlesaranum, „svo mikið er víst.“

Þetta var skarplegur drengur, skartaði afgerandi gleraugum sem nú virtust í tísku, með þykkri hornréttri svartri umgjörð – Gellir minnti Ævar að hann héti.

„Eins og Stasí sagði þá er þetta svolítið ruglingslegt.“

Stasí! Er hún virkilega kölluð það? Ævar rámaði í að einhver Anastasía væri skráð í námskeiðið – kannski af rússneskum ættum. Hver samþykkir annars að láta kalla sig Stasí?

Þrátt fyrir framígripið áræddi hann að skerpa nokkuð á hellunni. Strauk í gegnum hnausþykkt svart hárið og sagði svo frá því að þjóðernishyggja hefði gjarnan sprottið fram í baráttu þjóða gegn erlendum yfirráðum eins og til að mynda í Palestínu, Bosníu, Litháen, Kúbu, Írak og Kína. Einnig á meðal þjóðarbrota á borð við Katalóna og Baska á Spáni, Québec-búa í Kanada og Skota í Bretlandi. Smám saman hefði hún svo þróast yfir í upphafningu eigin þjóðernis umfram önnur. Rætur slíkrar þjóðernishyggju mætti rekja til skrifa ítalska hugmyndafræðingsins Guiseppes Mazzinis á miðri nítjándu öld sem sagði æðsta stig frelsisins vera þjóðarinnar en ekki einstaklingsins: Til að öðlast æðra frelsi afsalaði einstaklingurinn frelsi sínu til þjóðarheildarinnar.

Fyrir utan síðhærða piltinn á aftasta bekk var ekki annað að sjá en nemendur væru nokkuð vakandi. Ævar leit ánægður yfir nemendahópinn og var við það að halda inn í næstu lotu þegar Gellir greip aftur inn í mál hans:

„Er þetta nú ekki orðið úrelt?“ spurði hann og efaðist greinilega um allt sem fyrirlesarinn hafði að segja.

„Nei, þjóðernishyggjan er enn grunnur okkar þjóðfélaga,“ svaraði Ævar ákveðinn og fór svo yfir það hvernig hún hefði í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar þróast yfir í fasisma á Ítalíu og í Þýskalandi með allri þeirri skelfingu sem við þekktum.

Lýsti því svo hvernig blaðamaðurinn fyrrverandi Benito Mussolini – sannfærður sósíalisti allt þar til agi herþjálfunar breytti honum í einarðan þjóðernissinna – hefði nýtt sér efnahagslega örvæntingu og pólitíska ringulreið á milli stríða til að hrifsa völdin úr hrumum höndum kóngsins sem kiknaði undan álaginu. Hvernig hann fylkti svartstakkasveitum sínum undir gömlu tákni Rómverja um yfirráð: Fascismo – knippi prika vöðlað saman við exi.

Á þessum þætti virtust þau hafa mestan áhuga, vildu vita meira um táknmyndirnar en þær þekkti Ævar ekki alveg nógu vel. Kom sér því nokkuð nett hjá svari og tók þess í stað til við að lýsa því hvernig fasistar hefðu boðað styrka stjórn byggða á hugmyndafræði hermennsku í viðleitni til að koma á reglufestu og hefja ítalskt þjóðerni aftur til vegs og virðingar.

Ævar tók sér stutta málhvíld, sneri sér að krítartöflunni og teygaði örsnöggt smók úr rafrettunni í innanávasanum áður en hann lagði upp í næsta lið kennslunnar. Átti í handraðanum geníal skemmtisögu um Guiseppe Mazzini til að krydda frásögnina og var í óðaönn að byggja mál sitt upp fyrir hápunktinn þegar þetta varð.

Breytingin var ógnvænleg. Líkt og loft tæmdist skyndilega úr blöðru þegar þau hurfu öll inn í skjáina sína, hvert ofan í sinn síma eða tölvu. Áður bjartleit og brosandi andlitin hvítnuðu hvert af öðru fyrir framan hann, brandarinn sem loksins kuðlaðist út úr honum hljóðnaði hláturlaust í tóminu. Síðhærði pilturinn, sem áður lá svo angurvær fram á borðið aftast í kennslustofunni, var vaknaður og tók fyrir vit sér þegar hann sá á tölvuskjánum hvað hafði gerst. Ævar horfði á hann kæfa óp sem virtist vera við það að hrökkva upp úr honum. Skilningsleysi lýsti úr andlitum nemenda. Svo breiddist skelfingin út.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“