Ísland var eitt mikilvægasta vígi Bandamanna þegar staðan í seinni heimsstyrjöldinni var sem tvísýnust 1940–1942. Þá urðu miklir atburðir sem ófust með ýmsu móti saman við sögu þjóðarinnar. Ný bók Magnúsar Þórs Hafsteinssonar ritsjóra Vesturlands sem ber heitið „Vargöld á vígaslóð – frásagnir tengdar Íslandi úr seinni heimsstyrjöldinni“ greinir frá nokkrum slíkum þáttum. Bókin kemur út á næstu dögum.
Í I. þætti bókarinnar segir frá einu ótrúlegasta klúðri seinni heimsstyrjaldarinnar, þegar Bretar klófestu glænýjan þýskan kafbát suðaustur af Vestmannaeyjum. Áhöfn hans gafst upp. Báturinn varð herfang Breta sem fluttu hann í Hvalfjörð. Þar var hann rannsakaður áður en honum var siglt til Bretlands. Taka kafbátsins sem hét U-570 var stórtíðindi í styrjöldinni. Þetta hnoss færði Bretum gríðarlegar upplýsingar um gerð þýsku kafbátanna og varð eflaust mikilvægur þáttur í því að þeim tókst að lokum að brjóta þessa úlfa undirdjúpanna á bak aftur og hafa sigur í orrustunni um Atlantshafið.
Winston Churchill forsætisráðherra kallaði þetta „einstakan atburð“ í endurminningum sínum um seinni heimsstyrjöldina. Flugvöllur Breta í Kaldaðarnesi í Flóa var lykilforsenda þess að það tókst að klófesta kafbátinn sem var að mestu skipaður viðvaningum í sínum herleiðangri á slíkum farkosti. Hér er gripið niður í kaflann þar sem Hans-Joachim Rahmlow skipherra og áhöfn hans halda frá Noregi.
Timbraðir og sjóveikir
Það reið vissulega á að drífa kafbátinn út til vígaferla. Áhöfnin á U-570 var meðal þeirra 16 sem fengu nú fyrirmæli um að halda á hafsvæðið suður af Íslandi til að sitja þar fyrir skipunum sem voru á leið frá Norður-Ameríku til Bretlands. U-570 skyldi halda til hafs í fylgd annars kafbáts og vopnaður þýskur togari átti að fylgja þeim fyrsta spölinn. Að loknum leiðangri suður af Íslandi skyldi U-570 svo stefnt til hafnar í La Rochelle við norðanverðan Biskajaflóa á vesturströnd Frakklands. Þar var nú voldugt vígahreiður þýsku kafbátanna.
Nú átti allt loksins að verða klárt. Hans-Joachim Rahmlow og menn hans héldu veglega veislu í Þrándheimi í Noregi þar sem drykkjarföngin voru hvergi spöruð áður en þeir héldu af stað árla dags 24. ágúst. Þar gekk á með söngvum og ræðuhöldum þar sem menn töluðu kjarkinn í félaga sína, sögðu frá einkahögum sínum og rifjuðu í sameiningu upp stutta hrakfallasögu farkostsins sem átti að verða vopn þeirra í komandi stríðsátökum suður af Íslandi. Þetta virtist öðrum þræði gert til að reyna að lappa upp á samstöðu og liðsanda um borð.
Strax þegar komið var á haf út kom í ljós að kafbáturinn var alls ekki sjóklár og allra síst í stríðsleiðangur. Sennilega voru það skemmdir, sem höfðu orðið við að taka niðri, sem nú komu í ljós þegar í alvöru reyndi á búnaðinn. Sjór lak inn í bátinn við tundurskeyta- og útblástursrör og loftpressa reyndist biluð. Einnig tók önnur díselvélanna að ofhitna vegna bilunar og það varð að drepa á henni meðan gert var við. Dælur voru líka í ólagi. Nokkrir rafgeymar voru lausir og það hafði ekki verið gengið nægilega tryggilega frá fjórum tundurskeytum í stafnhluta kafbátsins. Eitt þeirra losnaði og féll á dunka með koppafeiti þar sem einn tættist í sundur með tilheyrandi óþrifnaði. Ekki bætti svo úr skák að flestir skipverja voru í byrjun leiðangursins illa haldnir af timburmönnum eftir veisluhöldin rétt fyrir brottförina. Andrúmsloftið í kafbátnum varð fljótt súrefnissnautt og illa lyktandi.
Þegar kom út á rúmsjó urðu flestir ákaflega sjóveikir. Menn ældu í opnar fötur niðri í bátnum og það bætti ekki lyktina um borð. Margir urðu svo veikir að þeir gátu ekki staðið vaktir. Þeir sem á annað borð gerðu það voru máttlausir og sinnulausir. Þetta var sjóveiki eins og hún gerist verst. Andinn var slæmur um borð. Undirmönnum kafbátsins þótti sem foringjarnir sýndu þeim kuldalegt viðmót, lítilsvirðingu og hroka.
Þrátt fyrir þetta skelfilega ástand um borð hélt kafbáturinn áfram siglingu ofansjávar vestur í hafið, norður fyrir Færeyjar með stefnu á svæðið djúpt suðaustur af Vestmannaeyjum. Þar áttu Rahmlow og menn hans að bíða átekta þar til kaupskipin birtust eða áhafnir annarra kafbáta fyndu þau og vísuðu hinum á slóðina. Þann 25. ágúst sáu þeir til ferða flutningaskips og síðan birtist annað daginn eftir. Þeir fengu líka fregnir með loftskeytum um að einn þýsku kafbátanna hefði sökkt fjórum skipum sem höfðu siglt undir verndarvæng bandarískra tundurspilla. Þjóðverjar töldu að Bandaríkjamenn hefðu, á þessu stigi í stríðinu litla reynslu af kafbátahernaði, enda voru Bandaríkin enn ekki orðin virkur aðili í seinni heimsstyrjöld og stríðinu gegn Þýskalandi. Það myndi ekki gerast fyrr eftir árás Japana á Perluhöfn á Hawaii í desember þetta sama ár 1941.
Þegar nálgast tók Íslandsmið sigldu þeir á U-570 fram á þrjú tundurdufl á reki í haffletinum. Þeir töldu þau þýskrar gerðar. Þetta var áminning um þær hættur sem nú biðu þeirra. Aðfaranótt 27. ágúst barst svo annað skeyti um að kafbátur hefði sökkt skipi í grennd við það hafsvæði sem U-570 stefndi til og yrði nú brátt staddur á. Fregnirnar léttu vissulega brúnir manna og gáfu vonir um góða veiði í þessum leiðangri.
U-570 finnst suðaustur af Eyjum
Þeir komu loks á þetta svæði að morgni 27. ágúst. Þar sem hljóðnemakerfið var bilað gat Rahmlow ekki látið bát sinn liggja langdvölum kyrran undir yfirborði sjávar og hlustað eftir vélarhljóðum skipa. Þess í stað varð hann að halda bátnum í yfirborðinu svo að menn gætu staðið á útkikki með sjónauka á stjórnpalli í von um að koma auga á skipaferðir. Þetta var auðvitað stórháskalegt á hafsvæði þar sem allt moraði af kafbátaleitarflugvélum en þeir áttu engra annarra kosta völ.
Úrvinda af sjóveiki veltust þeir um á haffletinum. Rahmlow sá að menn hans voru engan veginn á sig komnir til að sinna verkum sínum eins og þeim bar. Klukkan var 8:00 að morgni. Þar sem allt benti til að skipalestin, sem þeir áttu að veita fyrirsát, kæmi ekki á svæði þeirra fyrr en daginn eftir ákvað Rahmlow að gefa mönnum sínum smáfæri á að jafna sig eftir siglinguna. Hann fyrirskipaði köfun niður á um 40 metra dýpi. Þar stöðvaði hann kafbátinn og hugðist veita skipverjum hvíld í tvo tíma. Kafbáturinn lá kyrr neðansjávar í algerri þögn. Loks fengu þeir smáhlé frá þessum bölvaða veltingi sem var að gera þá vitlausa.
Hans-Joachim Rahmlow hafði ekki hugmynd um að þennan sama dag væri áætlað að fara í alls 36 kafbátaleitarflug frá Íslandi, allt frá sólarupprás fram á nótt. Flugvélarnar kembdu hafsvæðið suður af landinu í leit að stjórnturnum eða sjónpípum kafbáta. Þarna árla um morguninn hafði tveggja hreyfla Lockheed Hudson-vél frá 269. flugsveit bresku strandgæslunnar á Kaldaðarnesflugvelli í Flóa í Ölfusi verið í slíku eftirlitsflugi á svipuðum slóðum og U-570 var nú staddur á. Flugmenn hennar töldu sig hafa séð umrót í haffletinum eftir kafbát. Þeir merktu staðinn með reykblysi og sendu loftskeytaboð til bækistöðvanna í Kaldaðarnesi. Nokkru síðar töldu þeir sig sjá kafbát og reyndu að varpa djúpsprengjum. Þær losnuðu hins vegar ekki úr festingum. Kafbáturinn hvarf sjónum í undirdjúpin án þess að séð yrði að áhöfn hans hefði orðið vör við flugvélina.
Þetta atvik varð hins vegar til þess að önnur flugvél af sömu gerð, tilheyrandi sömu flugsveit, var send síðan síðar þennan sama morgun frá Kaldaðarnesi til þessa svæðis. Fjögurra manna áhöfnin, undir stjórn hins 31 árs gamla James H. „Tommy“ Thompson, flugstjóra og flokksforingja í 269. flugsveitarinni, hafði fengið fyrirmæli um að kanna betur svæðið austur af Vestmannaeyjum þar sem sést hefði til kafbáts fyrr um morguninn. Þeir fóru í loftið klukkan 8:45 og flugu um fram og aftur yfir endalausu hafinu í leiðindaveðri.
Við vissum þarna árdegis að það væri kafbátur einhvers staðar þarna á þessum slóðum í Atlantshafinu. Önnur Hudson-vél frá flugsveit minni var búin að sjá hann tvisvar en hann kafaði og komst undan í bæði skiptin. Atlantshafið tók ekki vel á móti okkur þegar við hófum flugið þennan morgun. Sjórinn var úfinn og þakinn reiðilegum hvítum öldutoppum. Það var lágskýjað og við vorum alltaf að fljúga inn í regnskúrir og slæm veðurskilyrði. Við flugum langar leiðir lágt yfir haffletinum og það var ekkert að sjá nema ský, öldur og rigningu. Þetta var farið að verða ansi einsleitt,
sagði Thompson flugstjóri síðar í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC. Á svona tilbreytingarlausu kafbátaleitarflugi var oftast flogið með sjálfstýringuna á eftir fyrirfram ákveðnum leiðum á leitarsvæðinu, fram og aftur yfir haffletinum.
Þetta voru vanir menn sem vissu að kafbátaleit yfir úthafinu var þolinmæðisvinna . Flugið kallaði á einbeitni þó að veðurskilyrðin væru oft erfið yfir úthafinu suður af Íslandi þar sem skipalestirnar fóru um og helst mátti vænta þýskra kafbáta. Aðstoðarflugstjóri Thompsons var Jack Coleman, einn reyndasti siglingafræðingur 269. flugveitarinnar. Duggie Strode og Freddie Drake sinntu störfum loftskeytamanns og byssuskyttu. Flugvélin var búin öflugum kúlulaga vélbyssuturni sem komið var fyrir aftan til ofan á skrokk Hudson-flugvélarinnar.
Klukkan var 10:50 og voru þeir staddir um 80 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum. Coleman aðstoðarflugmaður sat frammi í nefi flugvélarinnar. Þar voru gluggar sem hægt var að skyggnast út um. Í nefhluta vélarinnar var einnig ratsjárbúnaður sem átti að greina kafbáta á haffletinum.
Allt í einu sá Coleman merki á ratsjánni sem gaf til kynna að þar gæti verið kafbátur á ferð. Og nú sá hann kafbátinn með eigin augum. „Þarna er einn, beint fyrir framan þig!“ kallaði hann til Thompsons flugstjóra sem tók umsvifalaust sjálfstýringuna af vélinni. Thompson steypti flugvélinni niður að kafbátnum sem var einungis í um kílómetra fjarlægð. Kafbáturinn var lítið eitt á hægri hönd séð frá flugstjóranum. Áhöfn hans hafði greinilega orðið vör við flugvélina og kafbáturinn var að byrja skyndiköfun. Þó að kafbáturinn væri í dauðafæri máttu þeir engan tíma missa og þeir fengju aðeins þetta eina tækifæri til að ná honum.
Thompson lét Hudson-vélina rétta sig úr dýfunni og hún æddi yfir kafbátinn aftan frá í um það bil 30 gráðu horni miðað við kjölfar hans. „Aðstoðarflugmaðurinn stóð nú með andlitið klesst við rúðuna í stjórnklefanum og hann sá betur til en ég úr sæti mínu svo að ég kallaði til hans: „Láttu mig vita hvenær við sleppum sprengjunum, Jack.“ Hann kinkai kolli og nokkrum sekúndum síðar heyrði ég alla áhöfnina hrópa í kór: „Núna!““
Það var hlutverk aðstoðarflugmannsins að virkja sleppibúnaðinn. Nú féllu fjórar 250 punda djúpsprengjur frá Hudson-vélinni frá Kaldaðarnesi. Myndu þeir hæfa?