Björn Valur Gíslason fyrrverandi varaformaður Vinstri grænna og Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins setja spurningamerki við frétt Fréttablaðsins í dag um úthringingar forystu- og áhrifafólks í VG til flokksráðsfulltrúa, en flokksráðið tekur endanlega ákvörðun um hvort Vinstri græn geta myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Fram kom í Fréttablaðinu í dag að nokkrir flokksráðsfulltrúar hefðu fundið fyrir þrýstingi frá forystunni og að margir séu neikvæðir gagnvart ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum.
Björn Bjarnason segir í vefdagbók sinni í dag að tilgangurinn með fréttinni sé að reyna að koma illu af stað:
Spyrja má eftir lesturinn: Hvert er tilefni fréttarinnar? Fyrirsögn hennar er: Ýmsir hugsi yfir úthringingum forystunnar í flokksráðsmenn. Það er sem sagt meginboðskapurinn að þingmenn, fyrrverandi ráðherrar og forystumenn eigi að láta flokksráðsmenn VG í friði! Tilgangurinn með fréttinni er líklega helst sá að koma illu af stað.
Björn Valur Gíslason segir á bloggsíðu sinni að með þessu sé verið að gera starfssemi stjórnmálaflokks tortryggileg að ósekju:
Það er fullkomlega eðlilegt að í aðdraganda stórra viðburða sé haft sé samband við fólk sem kosið hefur verið til trúnaðarstarfa í sínum flokki. Það er gert til að heyra hljóðið í fólki almennt, til að ræða tiltekin mál, undirbúa fundi og tala fyrir ákveðnum málstað. Það er ekkert nýtt við þetta eins og allir vita sem tekið hafa þátt í starfi stjórnmálaflokka og ástæðulaust að gera þetta tortryggilegt. Það er sömuleiðis eðlilegt að forystufólk í stjórnmálaflokkum, í þessu tilfelli Vinstri grænum, heyri í því fólki sem kemur til með að greiða atkvæði um ríkisstjórnmyndun ef til þess kemur.
Það væri óábyrgt af þeim að gera það ekki.