Finnur Árnason forstjóri Haga segir fyrirtækið hafa lengið skoðað að innleiða sjálfsafgreiðslu í matvöruverslunum en hár kostnaður hafi helst staðið í vegi fyrir innleiðingu slíks búnaðar hér á landi. Sjálfsafgreiðsla tíðkast víða í Bandaríkjunum og Evrópu þar sem viðskiptavinir sjá sjálfir um að skanna strikamerki og borga fyrir vöruna án þess að eiga samskipti við starfsmann verslunarinnar.
Slíkur búnaður er þegar notaður í verslun IKEA og var eitt sinn notaður í verslun Krónunnar á Bíldshöfða. Útbúnaður af þessu tagi er nokkuð umdeildur, sagði Egill Helgason hér á Eyjunni í gær að þetta væri aðeins til þess að stórfyrirtæki gætu sparað í starfsmannahaldi.
Sjá einnig: Verri þjónusta er betri þjónusta
Finnur sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun hann væri alveg klár á því að þetta muni aukast hér á landi í framtíðinni en fram til þessa hafi búnaðurinn verið dýr sem og aðlögunin að íslenskum markaði. Búnaðurinn henti til dæmis vel í Lundúnum þar sem viðskiptavinir væru með litlar körfur og álag í verslunum mikið:
Þetta hentar mjög vel þar sem er hádegisálag, síðdegisálag, þar sem fólk er að flýta sér, tekur fáa hluti og vill fara hratt í gegn. Að okkar mati þá er þetta ekki að leysa alla þá þætti sem þarf að leysa. Ef við förum í þessar lausnir þá þarf þetta að vera valkostur, til þess að minnka raðir og vera fyrir þá sem vilja flýta sér í gegn,
sagði Finnur. Hann tók fram að Hagar, sem reka meðal annars verslanir Bónus og Hagkaup, hefðu ekki tekið neinar ákvarðanir varðandi sjálfsafgreiðslu. Þetta væri hins vegar framtíðin, benti hann á innritun í Leifsstöð sem væri nú að mestu leyti gerð í sjálfsafgreiðslu:
Við erum auðvitað með kynslóð sem er að vaxa úr grasi sem þekkir ekkert annað en að ýta á skjá og leysa sín vandamál sjálf. Þannig að ég held að þetta aukist mikið og verði stór þáttur í framtíðinni þó að þetta sé ekki að gerast yfir nótt.