Friðarsinnar munu ganga niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að mótmæla notkun kjarnorkuvopna, en líkurnar á beitingu kjarnavopna hafa sjaldan verið meiri en nú, að því er fram kemur í tilkynningu. Þetta er í 38. sinn sem gangan er haldin, en einnig er gengið til friðar á Ísafirði og Akureyri, venju samkvæmt.
Gengið er frá Hlemmi klukkan 17:45 á Þorláksmessu og verður útifundur að göngu lokinni, á Austurvelli. Þar mun Árni Hjartarson jarðfræðingur flytja ávarp og söngfólk taka lagið.
Hér má lesa tilkynninguna í heild sinni
Friðargöngur með ákalli um kjarnorkuafvopnun: gengið í 38 ár – nýir ljósgjafar!
Það eru viðsjárverðir tímar í veröldinni. Þjóðarleiðtogar nota sjálfan ræðustól allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna til að hóta andstæðingum sínum kjarnorkutortímingu. Fregnir berast af kjarnorkutilraunum sem eru hreint brot á alþjóðalögum og meiri fjármunum er varið til þróunar á þessum háskalegu vopnum en um langt skeið. Líkurnar á beitingu kjarnavopna hafa sjaldan verið meiri.
Á sama tíma berast jákvæðar fregnir af vaxandi kröfum um afvopnun. Alþjóðasamtökin ICAN fengu á dögunum friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína fyrir banni við kjarnorkuafvopnun. 122 ríki Sameinuðu þjóðanna hafa samþykkt sáttmála um bann við þessum vopnum. Ísland var því miður ekki þar á meðal frekar en aðrar Nató-þjóðir.
Í ljósi þessa vilja íslenskir friðarsinnar hvetja fólk til að taka sér hlé frá jólaundirbúningi til að leggja sín lóð á vogarskálar friðar og afvopnunar. Á Þorláksmessu verður friðarganga niður Laugaveginn. Þetta er 38. árið sem friðarsinnar leggja kröfunni um frið lið á þesum degi. Slíkar göngur verða að venju einnig haldnar á Ísafirði og Akureyri.
Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir göngunni. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað klukkan 18. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðarhreyfingarnar selja göngufólki friðarljós við upphaf göngunnar á Hlemmi. Að þessu sinni verður gerð breyting á langri hefð og í stað kerta gefst fólki kostur á að kaupa kertalaga „Led ljós“ á 500 krónur eða friðarkyndil frá Landsbjörgu sem kostar 1000 krónur. Er það von Samstarfshópsins að þessi breyting mælist vel fyrir hjá friðarsinnum.
Í göngulok verður útifundur á Austurvelli þar sem Árni Hjartarson jarðfræðingur flytur ávarp. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum undir stjórn kórstjórans Þorgerðar Ingólfsdóttur og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar mun leiða gönguna og syngja á leiðinni og í lok fundarins.
Á Ísafirði leggur friðargangan af stað frá Ísafjarðarkirkju klukkan 18. Gengið er niður á Silfutorg. Andrea Sigrún Harðardóttir sagnfræðingur og kennari flytur ávarp
Á Akureyri hefst friðargangan klukkan 20 frá Samkomuhúsinu. Þórgnýr Dýrfjörð verður ræðumaður.
Samstarfshóp friðarhreyfinga skipa:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
SGI á Íslandi mannúðar og friðarsamtök búddista