
Út er komin bókin Í liði forsætisráðherra eða ekki? eftir Björn Jón Bragason lög- og sagnfræðing. Bókin fjallar um þau straumhvörf sem urðu í viðskiptalífinu og stjórnmálunum með einkavæðingu bankanna árið 1999, til dagsins í dag, en þjóðfélagið skiptist nánast í tvo hópa, með eða móti forsætisráðherra. Bókin skartar fjölmörgum sögum sem ekki hafa litið dagsins ljós og gefur skemmtilega innsýn í þann hluta sagnfræðinar sem ekki hefur birst í dagblöðum.
Ein sagan (af mörgum) er um Davíð Oddson, þáverandi Seðlabankastjóra. Sagan gerist laugardaginn 4. október 2008 skömmu eftir þjóðnýtingu Glitnis. Deginum áður hófst áhlaupið á bankana, þegar almenningur flykktist til að taka út sparifé sitt, en Davíð Oddson lýsti því yfir að innistæðutryggingar væru tryggar. Stefán Svavarson endurskoðandi Seðlabankans, var fenginn til að fara yfir lánabók Glitnis, en Davíð Oddson hafði fundið sitthvað að henni, hún væri „bara punktar og strik.“ Við grípum niður á blaðsíðu 208:
„Á laugardeginum, 4. október, áttu Lárus (Welding, innsk. blm) og þrír framkvæmdarstjórar Glitnis fund með embættismönnum Seðlabankans. Fundur þessi var haldinn á fimmtu hæðinni í bankanum, í einu af innri herbergjunum, sem snúa mót höfninni. Þar var farið yfir lánabókina, en Seðlabankamenn voru meira en lítið ósáttir með stöðu Glitnis. Davíð Oddson sat með þeim á fundinum og var þungur á brún. Hann vék af fundi til að ræða í síma við Mervyn King, bankastjóra Englandsbanka. Að því samtali loknu kom hann inn dansandi og söng fyrir munni sér: ´Burt mun skuld´eða eitthvað því um líkt og sagði síðan: ´mig langar í pylsu.´Lárus og félagar sátu agndofa og spurðu sig hvað væri eiginlega í gangi.“
Þá vitum við það. Davíð segir pylsu, en ekki pulsu. Ekki fylgir sögunni hvort Davíð lét verða af ósk sinni.